Við rannsóknir á skipulagsheildum sem hafa orðið undir í samkeppni hefur komið fram leitni sem fræðimenn eru farnir að kalla „Anorexia Industrialosa“ sem mætti kannski heimfæra á íslensku sem rekstrar röskun.

Einkenni þessara skipulagsheilda er einbeittur vilji þeirra til þess að ná fram hagræðingu í rekstri með niðurskurði á kostnaði. Viljinn til þess að keyra niður kostnað gengur svo langt að hann leiðir til megurðar og loks dauða skipulagsheildarinnar. Í dag er talið að fjöldinn allur af fyrirtækjum sem féllu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar megi rekja til hugarfars stjórnenda sem einblíndu um of á fjármálalegar kennitölur og arðsemi í gegnum niðurskurð kostnaðar.

Undir slíku hugarfari þarf hver einasti vöruliður, hvort sem um er að ræða vöru eða þjónustu að skila fyrirfram skilgreindri arðsemi án tillits til stöðu á markaði. Til þess að ná framsettu arðsemismarkmiði var annað hvort vöruverð hækkað eða varan var tekin af markaði ef arðsemi var ábótavant.

Í dag eru hæfir stjórnendur ávallt að gera sér betur og betur grein fyrir því að þeir geta ekki hunsað markaðinn sem þeir starfa á, ætli þeir sér að ná varanlegum innri vexti í skipulagsheildina. Það einfaldlega gengur ekki upp að taka ekki tillit til markaðarins og viðskiptavinanna á sama tíma og skorið er niður og aðlagað í rekstrinum. Á milli þessara þátta ríkir viðkvæmt órjúfanlegt jafnvægi.

Hér eru 5 atriði sem geta bent til þess að skipulagsheildin sé farin að renna niður brekkuna  í átt að rekstrar röskun.

  1. Fyrirtækið er að tapa viðskiptavinum en veit ekki hvers vegna.
  2. Sú skoðun ríkir að viðskiptavinir sem ekki snúa aftur skili hvort sem er ekki nægjanlegum arði og séu óþarflega kröfuharðir.
  3. Þú sem stjórnandi hefur ekki talað við viðskiptavini þína í meira en einn mánuð. Þegar þú gerir það ert þú ekki góður hlustandi þannig að þér finnst það sem þeir hafa fram að færa ekki skipta máli.
  4. Þú sem stjórnandi situr mestan tíma þinn á bak við skrifborðið við að greina tölur úr bókhaldinu í leit að niðurskurðar tækifærum.
  5. Þú sem stjórnandi ferð ekki út á markaðinn til þess að fá stemninguna þar í æð.

Í raun má segja að skipulagsheild með rekstrar röskun sé jafn sjúk og einstaklingur með lystarstol eða átröskun. Þegar horft er í spegil sér lystarstols-sjúklingur ekki hversu illa er komið fyrir sér. Hann trúir því að ástand og útlit hans batni með auknu svelti. Þannig gengur hann þvert á eign heilsu og heilbrigði heltekinn af hugmyndafræði sem margsinnis hefur verið sýnt fram á að leiði til glötunar.

Sama á við um stjórnandann sem knúin er áfram af þeirri hugmyndafræði að aukinn niðurskurður færi fyrirtækinu á endanum varanlega arðsemi. Hann sér ekki hvernig hann getur brugðist við sívaxandi rekstrar vanda með öðrum hætti. Hann finnur ekki þennan viðkvæma jafnvægispunkt á milli þarfa markaðarins og viðskiptavinanna annarsvegar og aðhalds og ráðdeildar í rekstri hinsvegar. Hann gengur því fram í góðri trú um að hann sé að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að bjarga rekstrinum. En hann er í raun að leiða fyrirtækið í enn meiri erfiðleika.

Framhald síðar…

VG

Í síðari grein verður m.a. sýnt fram á hvernig markaðslegar rannsóknir geta sagt til um rekstrar heilbrigði skipulagsheildarinnar umfram hefðbundinn efnahags og rekstrarreikning.