Áætlaður kostnaður við raforkusæstreng til Bretlands, ef af verður, er u.þ.b. 6 milljarðar Bandaríkjadala eða átta hundruð þúsund milljónir króna. Þá eru talin með nauðsynleg endamannvirki og háspennulínur á Íslandi. Nýjar virkjanir eru hér ekki taldar með þótt ljóst sé að forsendur þess að bresk yfirvöld fáist til þess að greiða niður orkuna sé að um strenginn verið seld ný græn orka.
Þessa gríðarlegu fjárfestingu hefur m.a. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur reiknað yfir í flutningsverð á hverja megavattsstund (MWh). Varpast þá yfir á orkuna 125 Bandaríkjadala kostnaður á hverja selda megavattsstund (USD/MWh). Einnig eru til útreikningar sem ganga mun lengra, en þá er búið að vega inn það tap sem verður vegna viðnáms í strengnum og gert ráð fyrir að strengurinn verið stopp að meðaltali 60 daga á ári vegna viðhalds. Miðað við þetta þá fer þessi tala nokkuð upp fyrir 125 dali á hverja megavattsstund (USD/MWh), allt eftir því hvaða forsendur liggja til grundvallar.
Það má öllum vera ljóst að möguleikar Landsvirkjunar á því að ná ásættanlegri framlegð á orkusölu í gegnum raforkusæstreng með þennan flutningskostnað og ört lækkandi orkuverð á heimsvísu eru mjög takmarkaðar.
Helstu áhugaaðilar um þennan raforkusæstreng, ásamt Landsvirkjun hafa ekki opinberað þá arðsemisútreikninga sem þeir byggja málflutning sinn á. Hér með er skorað á þá að gera það.