Ástandið í Straumsvík er eldfimt þessa dagana. Starfsmenn álversins og stjórnendur hafa ekki náð að klára kjarasamninga og allt er þar í hnút. Afleiðingin er eðlilega sú að gjá hefur myndast á milli þessara aðila og við slíkar aðstæður er andrúmsloftið á vinnustaðnum þrúgandi.
Enginn vafi leikur á því að staða Rio Tinto Alcan í Straumsvík (RTA) er sérlega erfið og fyrirtækið tapar miklum fjármunum á degi hverjum. Samkeppnishæfni álversins hefur laskast verulega í rekstrarumhverfi óvenju lágs heimsmarkaðsverðs á áli, sem fer saman við miklar orkuverðslækkanir á samkeppnismörkuðum, á meðan orkuverð frá Landsvirkun lækkar alls ekki neitt. Þannig greiðir RTA t.d. um 40% hærra verð fyrir orkuna til álversins hér en í nýgerðum samningum til álvera í Kanada. Verkalýðsforkólfurinn frá Akranesi, Vilhjálmur Birgisson, hélt því fram nýlega að vandamálið með reksturinn í Straumsvík sé í raun raforkusamningurinn við Landsvirkjun frá árinu 2010 en ekki kjaramálin. Verkalýðsforinginn ætti manna best að vita ef einhverju er ábótavant við kjarasamninga, þannig að full ástæða er til að taka greiningu Vilhjálms á stöðunni alvarlega.
Aðeins ein lausn í sjónmáli?
Þetta þýðir að það virðist bara vera ein lausn á málinu, en hún er sú að raforkusamningurinn við Landsvirkjun verði tekinn upp og samið upp á nýtt um hagstæðara orkuverð, a.m.k. tímabundið. Þetta virðist vera eina leiðin til þess að endurheimta samkeppnishæfi álversins í Straumsvík. Ef þetta verður ekki gert, er stór hætta á því að álverinu verði lokað. Það þýðir að það tekur mörg ár að rétta þjóðarskútuna við eftir viðlíka ágjöf. Í máli Gunnars Tryggvasonar, sérfæðings í orkumálum hjá KPMG, kom nýlega fram að það tæki Landsvirkjun 4-6 ár að finna nýjan orkukaupanda. Auk þess er rétt að minna á öll þau störf og afleidd störf sem tapast ásamt opinberum gjöldum sem Hafnarfjarðarbær og ríkið verða af.
Fordæmin fyrir hendi
Eins og greinarhöfundur hefur áður bent á, eru fordæmin til staðar, t.d. í Kanada þar sem sams konar staða kom upp. Munurinn er sá að þar sjá viðkomandi orkufyrirtæki sér hag í því að vinna með viðskiptavinum sínum að lausn vandans. Þar var samið upp á nýtt við nokkur álver um lækkað verð sem speglar undanfarna verðþróun á raforkumörkuðum um allan heim. Einnig var orkuverðið tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Landsvirkjun, sem kölluð hefur verið “Gullkálfur þjóðarinnar”, virðist hins vegar ekki haggast og lætur eins og ekkert hafi í skorist.
Sláandi samanburður
Þegar RTA gerði nýjan orkusamning við Landsvirkjun árið 2010, gat enginn, hvorki samningamenn Landsvirkjunar né RTA, gert sér í hugarlund þá stöðu sem nú ríkir á raforkumarkaði og ekki síður á álmörkuðum. Þannig hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað um 34,4% prósent á árabilinu frá 2010 til 2015. Rafmagn hefur svo lækkað enn meira undanfarið. Olíuverð hefur lækkað um meira en 50%.
Norðurlöndin og Baltnesku löndin reka sameiginlegan uppboðsmarkað með raforku sem kallast nordpoolspot. Þar er hægt að bera saman raforkuverð frá einum tíma til annars. Meðaltals orkuverð ársins 2010 var 57,3 bandaríkjadalir ($) á hverja megawattsstund (MWst). Meðaltals orkuverðið fyrir desember 2015 er á þessari stundu 22,83 $/MWst. Það er 60% lækkun á raforku frá meðalverði ársins 2010. Ef við berum saman verð í desembermánuði á nordpoolspot markaðnum milli áranna 2014 og 2015, þá var meðalverð í desember 2014 34,20 $/MWst. Meðalverð fyrstu 8 daganna í desember 2015 er hinsvegar 22,44 $/MWst. Hér er því um 34,3% lækkun að ræða á milli ára.
Desember er sá mánuður ársins sem einna mest orka er notuð í og því ætti verðið að vera hátt á þessum árstíma. Ef marka má skrif Ketils Sigurjónssonar, má gera ráð fyrir því að RTA sé að greiða á bilinu 33 til 35 $/MWst. Þetta er 36% hærra verð en það meðalverð sem greitt er fyrir orkuna á Nordpoolspot markaðnum nú í desembermánuði. Það háa orkuverð sem RTA greiðir Landsvirkjun er þar af leiðandi langt frá því að vera samkeppnishæft. Það er þess valdandi að reksturinn í Straumsvík gengur ekki upp til lengdar. Greinarhöfundur getur því heilshugar tekið undir undir þá greiningu Vilhjálms Birgissonar, að erfiðleikarnir í Straumsvík snúist fyrst og fremst um ósamkeppnishæft raforkuverð en ekki kjarasaminga.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2161645