Umræðan um raforkusæstreng til Bretlands er á margan hátt eftirtektarverð. Ég get alveg sett mig í spor þeirra sem hafa ekki skoðað málið mikið en fylgst vongóðir með fréttum. Þeir trúa því að þetta hljóti að vera gott tækifæri, úr því að nokkrir „málsmetandi“ menn telji að svo sé. Erfiðara er að setja sig í spor þeirra sem birta matreiddar upplýsingar um sæstrenginn án þess að kanna eða reikna sig sjálfir niður á niðurstöðu.
Sala á væntingum
Frumlegastur er málatilbúnaður spunameistara sem reyna að telja fólki trú um að það sé gríðarlegt tækifæri í því að loka hér fyrirtækjum til að margfalt hærra fáist verð fyrir raforkusölu um sæstreng. Þetta er blekkingartilraun en kemur kannski ekki á óvart. Það var jú ansi góð „sala“ fyrir nokkrum árum á væntingum um að á Íslandi byggju bestu bankamenn í heimi. En hér horfum við því miður aftur á lítt klæddan keisara spígspora um gullhúðaðar götur.
Ein megin röksemd þess að setja upp sæstreng til Bretlands er að þannig sé hægt að selja græna íslenska orku með gríðarlegum meðlagsgreiðslum breska ríkisins. Meðlagsgreiðslurnar eru aðeins fyrir orku frá nýjum virkjunum sem kemur í stað orku sem framleidd var úr jarðefnaeldsneyti.
Lítil sem engin orka, sem nú er framleidd á Íslandi, fullnægir kröfum um að vera niðurgreidd með þessum hætti. Orka, sem í dag er notuð til iðnaðarframleiðslu á Íslandi, fæst ekki niðurgreidd samkvæmt gildandi reglum í Bretlandi enda er hún ekki ný. Með þessu falla til dæmis um sjálfar sig fullyrðingar um að það væri hægt að fá margfalt hærra verð fyrir orkuna sem í dag er seld til Ísals ef hún væri seld um sæstreng. Slíkar fullyrðingar eru hreinasta vitleysa og það er sorglegt að aðilar, sem þykjast vita eitthvað um orkumál, láti slíkt frá sér fara.
Nokkrar einfaldar staðreyndir
Til viðbótar við þetta líta sölumenn sæstrengsins líka framhjá nokkrum einföldum staðreyndum sem sýna okkur vel að allar hugmyndir um ofsagróða af sölu á orku með grænum niðurgreiðslum eru loftkastalar:
- Það hefur aldrei verið gerður samningur um grænar niðurgreiðslur þar sem orkusalinn er í öðru landi en ríkisstjórnin sem ætlar að greiða notkunina
- Sæstrengir frá Noregi til annarra Evrópuríkja byggjast ekki á slíkum niðurgreiðslum. Kostnaðurinn við norsku strengina er hins vegar margfalt minni en við ímyndaðan streng til Íslands og því ganga þeir norsku upp.
- Norsk raforka er nánast öll unnin úr vatnsafli og því græn. Norðmenn hafa aldrei fengið grænar niðurgreiðslur frá neinu öðru ríki (þótt þau séu tengd um sæstrengi)
- Reglur Evrópusambandsins, sem leyfa umræddar niðurgreiðslur, eru ætlaðar til að tryggja eðlilega afkomu til þeirra sem reisa nýjar umhverfisvænar virkjanir. Hvergi eru til dæmi um neinn ofsagróða eins og Landsvirkjun hefur látið í veðri vaka. Tálvonir um slíkt minna helst að loforð bankamanna fyrir hrun sem við öll þekkjum af biturri reynslu
- Bresk yfirvöld hafa leitað allra ráða til að minnka umræddar niðurgreiðslur til orkufyrirtækja þar í landi enda blöskrar breskum skattgreiðendum kostnaðurinn.
Orka, sem mögulega telst umframorka í íslenska kerfinu, er afar lítil í dag og skiptir í raun engu máli í þessu samhengi. Í allra besta falli væri um 5-10% af afkastagetu sæstrengs að ræða.
Möguleikar Íslendinga á ofsagróða á sölu grænnar orku með breskum niðurgreiðslum eru mjög takmarkaðir. Til þess þyrfti að byggja mikið af nýjum virkjunum á Íslandi og ná samkomulagi við Breta um að þeir geri Íslendinga moldríka á kostnað breskra skattgreiðenda.
Horfin tækifæri á markaði
Þá sitjum við uppi með það að orku um sæstreng verður að selja á markaðsverði hverju sinni. Og það gengur einfaldlega aldrei upp. Allir sem skoða málið örlítið sjá að strengurinn getur aldrei staðið undir sér vegna viðvarandi og harkalegrar lækkunar á heimsmarkaðsverði á orku, auk gríðarlegs kostnaðar við lagningu og viðhald strengsins á miklu dýpi við erfiðar aðstæður á Norður-Atlantshafi.
Orkuverð í Evrópu hefur fallið um helming á örfáum árum. Markaðsspár Landsvirkjunar gerðu hins vegar ráð fyrir því að orkuverð mundi tvöfaldast. Verðið í dag á mörkuðum í Evrópu er því aðeins 25-30% af því sem Landsvirkjun spáði. Á breska raforkumarkaðnum var meðalverð vikunnar 14. – 20. desember 2015 rétt um 51 Bandaríkjadalur á megawattsstund. Meðalverð ársins er rétt rúmlega 60 dalir. Meðalverð ársins á Norðurlöndunum er innan við 25 dalir. Til að koma íslenskri raforku á þessa markaði þarf að flytja hana um sæstreng til Evrópu. Kostnaðurinn við þann flutning samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun er 40 til 50 dalir á MWst. Skúli Jóhannsson hefur lagt fram útreikninga þar sem gert er ráð fyrir að flutnigskostnaðurinn með flutningsmannvirkjum innanlands geti verið helmingi hærri. Ef við notum lægri töluna frá Landsvirkjun þá eru 10-20 dalir eftir ef við seljum orkuna til Bretlands. En ef við ætluðum að selja hana til annarra landa í Evrópu, myndu tekjurnar ekki einu sinni duga fyrir flutningnum um sæstrenginn. Það sjá því allir að þessi áform ganga ekki upp og ekkert bendir til þess að sú staða breytist í fyrirsjáanlegri framtíð.
Niðurstaða
Niðurstaðan er sú að ef við Íslendingar ætlum að leggja sæstreng til Evrópu, sitjum við líklega uppi með gjaldþrota raforkufyrirtæki og engan orkusækinn iðnað áður en langt um líður. Það er því ótrúlegt að heyra aðila – þar á meðal talsmenn Landsvirkjunar – tala um sæstrenginn sem „gríðarlegt efnahagstækifæri fyrir Ísland“. Slík slagorð minna helst á firringuna í kringum íslenska fjármálamarkaði á árum áður og hin fleygu orð mikils fjárfestingarmógúls: „Það er minni áhætta fólgin í því að kaupa hlutabréf í DeCode en að kaupa þau ekki!“
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2162466