Markmið raforkulaga frá árinu 2003 var að leggja lagalegan grunn að því að í framtíðinni gæti skapast samkeppnismarkaður með raforku á Íslandi. Margir þeirra sem starfa á þessum markaði telja að lögin sjálf geri markaðinn að samkeppnismarkaði. Því fer þó fjarri að sú sé raunin hér á landi. Hér ríkir dæmigerður fákeppnismarkaður með raforku. Skilgreining á fákeppni er sú staða þegar seljendur eru fáir og keppa ekki af hörku, oft vegna sameiginlegra hagsmuna um að halda verði háu. Á íslenskum raforkumarkaði hefur einn framleiðandi algera yfirburðastöðu og er markaðsráðandi á fákeppnismarkaði, samkvæmt skilningi samkeppnislaga.

Orkuviðskipti á frjálsum markaði

Á frjálsum samkeppnismarkaði með raforku gera menn samninga um tiltekin viðskipti fram í tímann. Þessir samningar eru nokkuð staðlaðir og kveða á um þann tíma sem afhending skal fara fram á og það afl (MW) sem nota skal. Utan um þessa samninga halda síðan markaðsfyrirtæki sem eru að mörgu leyti áþekk kauphöllum með hluta- og skuldabréf.

Dæmi um slíkt markaðsfyrirtæki er Nordpool þar sem raforka frá hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum er boðin fram. Nordpool heldur utan um tilboð sem send eru inn, þeim svo tekið eða hafnað, og fastir samningar skráðir. Þessi markaðsfyrirtæki senda síðan upplýsingar til kerfisstjóra sem skipuleggur hver mikla orku seljendur setja inn á kerfið. 

Ef samningar komast á, fær seljandinn staðfestingu á því að hann megi á tilteknum tíma setja tiltekið magn af orku inn á netið og kaupandinn fær bréf upp á að mega taka tiltekna orku út af netinu á sama tíma. Þessi bréf geta síðan gengið kaupum og sölum. Það sem ræður mestu með verð á raforkunni á þessum markaði er eftirspurnin.

Tenginet Evrópu

Tenginet Evrópu samanstendur af línum og sæstrengjum sem tengja lönd Evrópu saman. Eitt helsta markmið Evrópusambandsins með sameinuðu Tengineti Evrópu er að jafna raforkuverð álfunnar. Einangruð svæði, þar sem orkuverð er hátt vegna takmarkaðs framboðs, má tengja við markaðinn með tengilínu. Þá lækkar orkuverð svæðisins og aðstaða samfélagsins þar jafnast á við önnur svæði. Markmiðið með þessum tengingum er þannig ekki síst samfélagslegs eðlis. Markaðskerfið sem stýrir verðlagningu og flutningsgjöldum hefur sama samfélagslega hlutverk.

Tenginet Evrópu, og þar með taldir raforkusæstrengir (mögulegur sæstrengur til Bretlands frá Íslandi myndi falla hér undir), er því í raun jöfnunartæki sem ætlað er að jafna raforkuverð í Evrópu allri. Þannig er markmið kerfisins að hækka orkuverð þar sem það er lágt en lækka það á þeim svæðum þar sem það er hærra. Því er óhjákvæmilegt að ef af áformum um raforkusæstreng frá Íslandi til Bretlands verður, munu jöfnunaráhrif þessarar framkvæmdar verða þau að raforkuverð á Íslandi hækkar umtalsvert á sama tíma og samfélagsábatinn hér minnkar. Hinsvegar mun raforkuverð á Bretlandseyjum lækka og samfélagsábatinn þar aukast. 

Íslenski raforkumarkaðurinn er hluti af sameiginlegum markaði Evrópu. Það er ástæðan fyrir því að sett voru ný raforkulög árið 2003. Það er einnig ástæðan fyrir sölu íslenskra raforkufyrirtækja á grænum skírteinum (aflátsbréfum) til Evrópu. Stjórnarnefnd Evrópusambandsins setur reglur þessa markaðar og við erum skuldbundin til að fylgja þeim. Samkvæmt þessum reglum er mögulegt að fá tímabundnar undanþágur frá reglum um viðskipti í gegnum nýjar tengilínur. Ekki er vitað um hverskonar undanþágur er að ræða né hve lengi þær gilda. 

Ávinningurinn tekinn af íslenskum heimilum

Lagaumhverfið, sem við erum hluti af, gerir því ráð fyrir að ávinningur íslensku þjóðarinnar af uppbyggingu raforkukerfisins (þjóðin hefur notið lágs orkuverðs frá byggingu Búrfellsvirkjunar) verði tekinn af heimilum landsins og hann færður Bretum með þeim verðjöfnunarreglum sem á svæðinu gilda. Landfræðileg lega landsins og einangrun hefur verndað okkur fyrir þessum áhrifum hingað til. Ef það gerist að lagður verði raforkusæstrengur á milli Íslands og Bretlands, hverfur sú vernd og jöfnunaráhrif regluverksins munu leggjast hér á heimili og fyrirtæki af fullum þunga. Þetta er að sjálfsögðu ein helst ástæða þess að Bretar sýna þessu verkefni mikinn áhuga. Hver er ekki tilbúinn til þess að stuðla að lækkun orkuverðs og um leið að auka samfélagslegan ábata í sínu eigin samfélagi? 

Því verður að spyrja þessarar spurningar: Er það hagur okkar Íslendinga að jafna þann mismun sem felst í lægra raforkuverði hér en í Bretlandi með því að hækka verðið hér á landi?

Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2164994