Grein 2 af 3.

Í þessari grein ætla ég aðeins að fara yfir stöðuna í raforkumálum þjóðarinnar eins og hún blasir við mér. Þessi grein er sjálfstætt framhald fyrri greinar.

Nútíð
Ríkjandi lagaumhverfi hér á landi varðandi raforkumarkaðinn og fyrirtæki raforkugeirans er í raun regluverk Evrópusambandsins. Það er samið og sett upp til að leysa allt önnur vandamál en við er að etja hér á landi. Regluverk ESB hvetur til hagkvæmni í nýtingu annars konar auðlinda en við búum að. Við verðum að hlíta þessum reglum í einu og öllu ef raforkusæstrengur verður lagður til Bretlands, þó að tímabundnar undanþágur kunni að fást fyrst í stað. Evrópska markaðnum er líka handstýrt með reglugerðarfargani sem er sífellt í endurskoðun. Þar eigum við takmarkaða eða enga aðkomu og ólíklegt að okkar mikilvægustu mál séu þar efst á blaði.

Í eldri raforkulögum var sérstakt ákvæði sem kvað á um að Landsvirkjun væri óheimilt að gera samninga við raforkukaupendur er gætu valdið hærra verði til almenningsrafveitna. Ekkert slíkt ákvæði er að finna í raforkulögum frá 2003. Þar með er LV heimilt að gera samninga um sölu á rafmagni um sæstreng, þrátt fyrir að ljóst sé vegna evrópskra reglugerða geti slíkur samningur hækkað verulega verð á raforku til almenningsrafveitna.

Spáð í orkuspilin 
Stóriðjan í landinu nýtir stærstan hluta af því rafmagni sem við framleiðum. Nýtingarhlutfall hennar er hátt og meðalverð á þeim samningum sem eru í gangi í dag, virðist vera hærra en markaðsverð til sambærilegrar starfsemi bæði í Noregi og Kanada.*

Sem stendur er stefnt að byggingu fjögurra stóriðjufyrirtækja (kísilmálmvera), sem kalla all á 200 til 300 MW með samsvarandi magni virkjana. Einnig er stefnt að lagningu sæstrengs til Skotlands, sem yrði samkvæmt sviðsmynd Landsvirkjunar um 1.000 MW. Virkjanir og vindmyllur, sem jafnframt yrðu byggðar, myndu einungis skila um helmingi þeirrar orku sem strengurinn væri fær um að flytja árlega. Ónýtt svigrúm yrði um 4.000 GWst/ári, sem samsvarar einu álveri. Þar með væri væri mögulegt án verulegrar áhættu að setja stóriðjufyrirtækjunum slíka kosti, að rekstur þeirra yrði óhagkvæmur. Möguleikinn einn gæti verið nægur til að þau hyrfu héðan eftir því sem samningar þeirra rynnu út. Væntanlega yrði leitað eftir nýjum, smærri iðjuverum til að nýta orku þeirra iðjuvera sem væri lokað. Þá skapaðist svigrúm til að loka næsta stóra iðjuveri á sama hátt.

Hinn nýi iðnaður, sem nýta ætti orkuna, yrði að geta greitt orkuverð sem væri samkeppnishæft við markaðinn á hinum enda strengsins. Það yrðu orkuveitur bæjar- og sveitarfélaga líka að gera. Almennt orkuverð hér myndi því hækka. Fyndist ekki iðnaður, sem gæti borgað svo hátt orkuverð, mætti freista þess að leggja fleiri sæstrengi. Þannig væru enn fleiri atvinnutækifæri í orkusæknum iðnaði flutt úr landi.

Vænlegur kostur? 
Auðvita var upphaflega hugmyndin um lagningu raforkustæstrengs til Bretlands áhugaverð, jafnvel heillandi. Talsmenn sæstrengs eru líka prýðisgóðir sölumenn. Þeir hafa lengi dregið upp þá mynd að um ofsagróða yrði að ræða af sölu á raforku í gegnum strenginn, en þvert á spár hefur orkuverð í Evrópu fallið um helming á örfáum árum. Markaðsspár Landsvirkjunar árið 2010 gerðu hins vegar ráð fyrir því að orkuverð mundi tvöfaldast. Verðið í dag á mörkuðum í Evrópu er aðeins 25-30% af því sem Landsvirkjun spáði um 2010. Möguleikar okkar Íslendinga á ofsagróða vegna sölu á grænni orku með breskum niðurgreiðslum eru því heldur takmarkaðir. Til þess þyrfti að byggja mikið af nýjum virkjunum á Íslandi og ná samkomulagi við Breta um að þeir gerðu Íslendinga moldríka á kostnað breskra skattgreiðenda. Væri breskur almenningur spenntur fyrir því?

Við óbreyttar markaðsaðstæður er ekki líklegt að sala á raforku um sæstreng reynist vænlegur kostur. Sá fjármála- og félagslegi virðisauki fyrir samfélagið sem felst í því að skapa verðmæt störf og útflutningsverðmæti innanlands á grundvelli þessarar orku hverfur, auk þess sem verð á mörkuðum Evrópu er enn á niðurleið.

Skortstaða? 
Vert er að staldra við sviðsmynd Landsvirkjunar af 1.000 MW sæstreng, þar sem flutningsgetan er aðeins nýtt um 50%. Með hliðsjón af lögmáli framboðs og eftirspurnar, kynni einhverjum að detta í hug að það væri ásetningur LV að búa til svokallað skortstöðu (ónægt framboð) á íslenskum raforkumarkaði. Það væri þá gert í þeirri viðleitni að reyna að halda orkuverðinu eins háu og mögulegt er. Skortstaða felur í sér hækkanir á almenning og iðnað sem ekki er með fastbundið orkuverð.

Þessi gjörningur er mögulegur þar sem ekkert ákvæði er í nýjum raforkulögum frá árinu 2003 um að Landsvirkjun skuli vera orkuframleiðandi til þrautavara. Þ.e. vera skylt að tryggja að ávallt sé nægilegt framboð á raforku í landinu. Að kalla fram skortstöðu getur reynst hættuspil. Þegar það gerðist í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum árið 2000, hrundi markaðurinn (talað var um „market meltdown“) með alvarlegum afleiðingum fyrir alla notendur. Almenn skynsemi segir okkur að slíka framvindu beri að forðast. Stendur það ekki nær raforkuframleiðenda í eigu almennings að sjá til þess að nóg sé af orku inn á flutningskerfinu okkar en að knýja fram verðhækkanir í krafti markaðsráðandi stöðu?

Vaxtarmöguleikar 
En missum við ekki einfaldlega af álitlegum vaxtarmöguleikum í nýtingu orkuðalinda þjóðarinnar ef raforkusæstrengur til Bretlands verður ekki að veruleika? Hverra kosta eigum við þá völ? Svarið er að við eigum ýmis tækifæri á fjölbreytilegum framleiðslu- og úrvinnsluiðnaði hér á landi. Þannig eru langtímasamningar við orkusækinn iðnað raunverulegur valkostur í staðinn fyrir lagningu sæstrengs. Við sköpum með því aukin hagvöxt, fleiri störf, minnkum áhættu og aukum hagsæld íbúa hér verulega umfram það sem fæst með raforkusæstreng. Um þessi áhrif eigum við lifandi dæmi af Austfjörðum þar sem uppbygging á orkusæknum iðnaði hefur aukið hagsæld svæðisins, gert búsetu þar raunhæfan kost fyrir ungt og vel menntað fólk og gert fyrirtækjum í fiskvinnslu kleift að auka sjálfvirkni án þess að fækkun starfa bitni harkalega á nærsamfélaginu.

Sú aðgerð að flytja orkuna út í gegnum raforkusæstreng jafnast á við að selja fiskveiðiheimildir þjóðarinnar beint og sleppa því að auka ábatann með veiðum og vinnslu. Áhugaverður kostur í flóru heildarnýtingar íslenskrar orku, segja sumir, en aðrir vilja kalla þetta útflutning á framtíðmöguleikum barna okkar.

Í næstu grein um orkustefnu Íslands munum við skyggnast til framtíðar og ræða aðeins um stefnumörkun stjórnvalda. 

*Byggt á opinberum tölum í ársreikning Landsvirkjunar og uppboðsmörkuðum með raforku í nágrannalöndum.

Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2167136