Öll mannanna verk krefjast einhverra umhverfislegra fórna. Það á jafnt við um þau svæði sem við kjósum að byggja sjálf, nærumhverfið okkar og svo einnig fjærumhverfið sem í sinni víðustu merkingu er veröldin öll.
Mér hefur verið þetta nokkuð hugleikið eftir að ég gerði mér ferð á opin kynningarfund Umhverfisstofnunar þar sem verið var að kynna niðurstöður eftirlits og umhverfisvöktunar á Grundartanga.
Halla Einarsdóttir frá Umhverfisstofnun kynnti niðurstöður eftirlits og mælinga á losun iðjuveranna sem þarna starfa. Það kom verulega á óvart hversu umfangsmiklar þessar athuganir eru. Óháðir aðilar á borð við Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Nýsköpunarmiðstöð og Eflu verkfræðistofu fylgjast með 54 mismunandi mæliþáttum á landi, í sjó og í andrúmsloftinu. Niðurstöðurnar sýndu að umhverfisáhrif þessarar starfsemi er vel innan þeirra marka sem sett eru í starfsleyfum hjá fyrirtækjunum Elkem, Norðuráli og Kratus. Fyrirtækið GMR endurvinnslan þarf hinsvegar að gera betur. GMR er enn smátt í sniðum og vigtar því lítið í heildinni. Það leysir það þó ekki undan skyldum sínum.
Fyrir alla sem unna landinu sínu eru þetta góð tíðindi í heildina tekið. Það er líka til fyrirmyndar hversu vel er fylgst með þessum fyrirtækjum og ánægjulegt að sjá hversu mikinn metnað þau flest leggja í það að ganga eins vel um og kostur er. Allri starfsemi fylgir einhver umhverfisleg fórn og það á að vera krafa okkar samfélags að lágmarka þann fórnarkostnað eins og mögulegt er.
Á Austurlandi þar sem uppbygging Fjarðaáls á árunum 2003 til 2007 kom inn í hnignandi samfélag eins og hlýr vorvindur eftir langan kaldan vetur, þekkja íbúarnir vel á eigin skinni bæði þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem uppbyggingin hafði í för með sér og einnig þær fórnir sem þetta hafði í för með sér. Díana Mjöll Sveinsdóttir framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Tanna er bæði að þjónusta iðjuverið og selja upplifun í íslenskri náttúru. Hvernig upplifir hún þetta?
Heiðarlegt og ærlegt svar. Umræðan þarf á því að halda að vera heiðarleg, opin og einlæg í allar áttir eins og hugleiðingar Díönu. Alltof mikil orka fer í að tala niður ákveðnar greinar í stað þess að skoða þessi mál heildstætt.
Það er staðreynd sem ekki á að vera neitt feimnismál að stóriðjan á Íslandi losar talsvert magn af gróðurhúsalofttegundum. Þessari starfsemi fylgjumst við vel með samanber kynningu Umhverfisstofnunar. Önnur staðreynd er að losun á gróðurhúsalofttegundum er miklu meiri af völdum framræsts votlendis. Enn önnur staðreynd er að losun gróðurhúsalofttegundum frá ferðamannaiðnaðnum er mun meiri en fólk gerir sér grein fyrir.
Flugvélar eru orkufrekustu farartækin okkar og jafnframt þau sem menga mest. Flugið mengar t.d. margfalt á við stóriðjuna hér á landi en fæstir gera sér grein fyrir því. Ástæðan, umræðan hefur ekki verið heiðarleg og heildstæð. Árið 2014, er heildarmagn CO2 sem flugið til Íslands losar um 8,5 milljónir tonna. Er þá reiknað út frá fjölda farþega um Leifsstöð. Við þetta bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri. Því er ljóst að ferðaiðnaðurinn losar margfalt meiri koltvísýring en aðrar greinar hér á landi og er þá ótalin sú losun sem tengist bílaleigubílum ferðamanna.
Sama ár 2014 má gera ráð fyrir að stóriðjan hafi losað samtals 1,8 milljónir tonna af CO2 út í andrúmsloftið. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna, en í þessari tölu er reyndar undanskilin stórfelld CO2 losun vegna framræsts votlendis eins og kemur fram hér að framan.
Við þurfum að taka þessa umræðu á yfirveguðum og heiðarlegum nótum líkt og Díana gerði hér að ofan. Upphrópanir og hræðsluáróður gagnvart einni atvinnugrein, líkt og rekinn hefur verið hér á landi árum saman, skilar okkur engu. Ýmis samtök, sem kenna sig við verndun lands, verða að hafa þann þroska að geta rætt málin á breiðum grunni og heildstætt. Ekki taka einn atvinnuveg úr fyrir sviga. Pólitískar upphrópanir hafa allt of lengi fengið að grassera í umræðunni um fórnarkostnað okkar af atvinnulífinu. Heiðarleiki, opin og gegnsæ umræða verður að eiga sér stað. Öllum er auðvelt að nálgast upplýsingar í gegnum netið. Ég hvet hvert og eitt ykkar til að kynna sér málin sjálf. Ekki til þess að stunda upphrópanir. Heldur til þess að geta tekið þátt í heiðarlegri og gagnsærri umræðu.
Ég ætla að enda þessar hugleiðingar á því að gefa Smára Geirssyni orðið. Smári, sem segir stoltur frá því að hann sé kommúnisti, stóð frammi fyrir þeim óvægna veruleika að samfélagið hans fyrir austan var að gliðna í takti við fækkun starfa í sjávarútvegi. Hann var ötull talsmaður þess að byggð yrði stóriðja í Reyðafirði til þess að sporna við vaxandi atgervisflótta af svæðinu. Fáir einstaklingar hafa þurft að velta fyrir sér þeim fórnum sem uppbygging stóriðjunnar hafði með eins afgerandi hætti og hann. Þar tókust á hugsjónir og kaldur veruleikinn. Við skulum loka þessum pistli með því að heyra hvernig hann upplifir þá fórn sem þurfti að færa.