Það gustar jafnan hressilega um Lars Christen­sen, hag­fræðing, sem flestir Íslendingar kannast við af reglulegum pistlum hans í viðskiptablaði Fréttablaðsins. Þetta er jú líka sá hinn sami og spáði fyrir um hrunið á Íslandi og ráðamenn þjóðarinnar reyndu án afláts að púa niður. Að þessu sinnu voru það Samtök iðnaðarins sem fengu Lars til þess að gera úttekt á raforkumarkaðnum á Íslandi. Úttekt þessi er fyrir margra hluta sakir afar merkileg. Hún staðfestir svo að ekki verður um villst þá stefnubreytingu sem orðið hefur á rekstri Landsvirkjunar í tíð núverandi forstjóra og undirritaður hefur ítrekað bent á. Frá því að Landsvirkjun var stofnuð, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hefur fyrirtækið lengst af verið rekið á grunni samfélagsþjónustu, þ.e. hagnaðinum hefur verið skilað til landsmanna í formi ódýrrar orku. Hin allra síðustu ár hefur þetta breyst og fyrirtækið horfir sífellt meira til auðsöfnunar undir því yfirskyni að það ætli sér að greiða mikinn arð í ríkiskassann.

Við Íslendingar stöndum í raun frammi fyrir tveim valkostum þegar kemur að raforkukerfi landsins og uppbyggingu þess. Fyrri valkosturinn er sá að hafa í heiðri þá framtíðarsýn sem mörkuð var þegar til Landsvirkjunar var stofnað. Sú sýn gerir ráð fyrir því að samningar við stóriðjuna greiði uppbyggingu og þróun íslenska raforkukerfisins og við Íslendingar njótum þess hagræðis í lægsta orkuverði í heimi – sem líta má á sem arðgreiðslu til almennings. Hinn kosturinn er sá sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar er að feta með fyrirtækið án þess að eigendur þess hafi óskað eftir því. Þessi kostur gerir ráð fyrir því að raforka á Íslandi verði seld hæstbjóðandi á markaði á hverjum tíma – markaði sem skortir samkeppni. Þetta er í raun markaðsvæðing Landsvirkjunar og rökréttur undirbúningur fyrir einkavæðingu fyrirtækisins.

Christen­sen bendir á þá einföldu staðreynd að ef ríkja á samkeppnismarkaður fyrir raforku á Íslandi, verði að skipta Landsvirkjun upp. Komi ekki til uppskiptingar á fyrirtækinu, muni það gnæfa áfram í markaðsráðandi stöðu yfir fákeppnismarkað þar sem evrópskar reglur um samkeppnismarkað gilda. Núverandi stjórnendur hafa sýnt það bæði í orði og verki að ætlun þeirra er að hækka orkuverð til samræmis við verð í Evrópu. Þetta eru þeir að gera í skjóli fákeppni án þess að ljóst sé hver ætli að bera á því pólitíska ábyrgð. Stefna þessi er hamlandi fyrir uppbyggingu á íslensku atvinnulífi og dregur úr samkeppnishæfni þess á alþjóðlegum mörkuðum. Að viðbættu hærra orkuverði til einstaklinga og fyrirtækja almennt veldur þessi þróun svokölluðu velferðartapi þjóðarinnar.

Stóra pólitíska spurningin sem þarf því að byrja á því að svara er hvort vilja menn markaðsvæða Landsvirkjun, með þeirri afleiðingu að fyrirtækið komi mögulega til með að greiða eitthvað hærri arð í ríkiskassann á sama tíma og landsmenn þurfa greiða miklu hærri orkureikninga líkt og í löndum Evrópu. Eða vilja menn að fyrirtækið verði áfram í eigu þjóðarinnar og nýti styrk sinn til þess að láta landsmenn alla njóta lágs orkuverðs af samstarfi sínu við stóriðjuna?

Þetta eru stóru valkostirnir tveir. Ef áfram verður haldið á braut markaðsvæðingar á raforku í skjóli evrópskra reglna, er óhjákvæmilegt annað en að skipta fyrirtækinu upp og einkavæða það. Annars verður aldrei eðlilegur samkeppnismarkaður til staðar. Ella ætti að horfa til þess eins að styrkja Landsvirkjun sem samfélagsfyrirtæki þannig að tryggt sé fyrirtækið verði ávallt í eigu landsmanna og að arði þess verði ávallt skilað í formi eins lágs orkuverðs og hugsast getur.

Í viðtali við Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar á mbl.is kemur fram að hann telur tillögur Lars Christen­sen um að brjóta upp Landsvirkjun óskynsamlegar. Máli sínu til stuðnings bendir forstjórinn á að um 80% af sölu Landsvirkjunar séu til stóriðju og gjörningurinn mundi veikja samningsstöðu fyrirtækisins gagnvart stóriðjunni. Þetta er í sjálfu sér alveg rétt hjá forstjóranum. Eðli þess að vera á samkeppnismarkaði er að þar fara fram kaup á sala með þeim hætti að hvorki seljandi eða kaupandi geta haft áhrif með einhliða ákvörðun á verðmyndun. En forstjórinn virðist líta á það sem veikleika ef fyrirtækinu yrði skipt upp og raunveruleg samkeppni mundi ríkja í stað fákeppni líkt og nú.

Einkenni fákeppnismarkaðar hafa berlega komið í ljós á síðustu árum og má í því sambandi nefna að mjög miklar hækkanir og skilmálabreytingar hafa komið fram á ótryggðri orku hjá Landsvirkjun. Um er að ræða einhliða ákvarðanir fyrirtækis á fákeppnismarkaði þar sem orka til ýmissar innlendrar iðnaðarstarfsemi hefur hækkað um tugi og í einhverjum tilvikum yfir 200 prósent. Rök forstjórans við gagnrýni á þessar hækkanir hafa verið staðhæfingar um „aukna eftirspurn.“ Einhliða hækkunarákvarðanir sem þessar eru óyggjandi sönnun þess að markaðurinn er ekki heilbrigður og á honum ríki fákeppni. Því er óhjákvæmilegt að haldi Landsvirkjun áfram að síga í átt að markaðsvæðingu, verður að skipta fyrirtækinu upp líkt og Christen­sen leggur til. 

Stjórnmálamenn verða því að taka á þessu máli og leggja fyrirtækinu Landsvirkjun til eigendastefnu. Ófært er að forstjórinn upp á sitt einsdæmi, í skjóli evrópskra reglna, ákveði að markaðsvæða fyrirtækið en ætli á sama tíma að halda dauðahaldi í fákeppnisstöðu á markaði. Þar með væri samfélagshlutverk Landsvirkjunar úr sögunni en velferðartap þjóðarinnar blasti við.

Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2174529