Aukin framleiðni er eitthvað sem við erum öll að eiga við hvort sem það er í einkalífinu þar sem við viljum gjarnan ná að gera meira og nýta daginn betur og ekki síður í vinnu þar sem við viljum ná framúrskarandi árangri.

Hér eru nokkur ráð sem reynst hafa þúsundum manna vel til þess að ná fram auknum afköstum og aukinni framlegð.

1. Skrifaðu aðgerðarlista (To-do lista).
David Allen hefur rætt og sýnt fram á að heilinn er ekki besti staður til þess að geyma upplýsingar um það sem þarf að koma í verk. Settu það niður á blað og hafðu fyrir vana að útbúa þér aðgerðarlista fyrir hvern dag.

2. Ekki reyna að gera margt í einu.
Dave Crenshaw höfundur bókarinnar „The myth of multitasking“ hefur bent okkur á að það sé blekking að halda því fram að við getum gert margt í einu. Kyn hefur ekkert með þetta að gera eins og haldið hefur verið fram í vinsælu leikriti hérlendis. Þeir sem einbeita sér að einu stóru mikilvægu verkefni í einu ná bæði betri árangri og auknum afköstum.

3. Settu þér skýr raunhæf markmið.
Markmiðasetning er öllum stjórnendum mjög mikilvæg. Mundu að markmiðin þurfa að vera SMART. Taktu mið af markmiðum þínum þegar þú skipuleggur vikuna þína.

4. Settu niður stóru steinana fyrst.
Settu niður fastan tíma til þess að eiga við stóru málin sem skipta þig mestu. Ekki láta daglegt suð eða litlu hlutina éta upp tímann þinn.