Á sama tíma og við þurfum að vera opin fyrir þeim tækifærum sem opnast í umhverfi okkar þá þurfum við líka að halda fókus og passa að missa ekki niður framlegðina okkar. Þegar ég tala um framlegð þá er ég að meina allt það sem eykur vægi eða verðgildi okkar í því umhverfi sem við höfum valið að starfa í. Þetta snýst jú um að halda í stýrið sjálf/ur eða stjórna vinnunni í stað þess að láta vinnuna stjórna þér. Þú þarft bara að eyða smá tíma til þess að koma þér upp rútínu þar sem þú hefur skýra sýn á það sem skiptir máli á sama tíma og þú ýtir frá þér því sem ekki er eins mikilvægt.
Hér eru nokkur atriði sem gætu hjálpa þér á þessari braut.
1. Settu þér raunhæf markmið og haltu fókus á þau
Markmiðin þín eru eins og áttavitinn þinn. Þau eru kjarninn í öllu því sem þú gerir. Þau verða að vera SMART (skýr, mælanleg, alvöru, raunhæf og tímasett). Hafðu þau skrifleg og stöðugt við hendina.
2. Dagbókin
Notaðu dagbók til þess að hjálpa þér við að skipuleggja tímann. Það skiptir ekki máli hvort að hún er rafræn og samhæfð milli margra ólíkra tækja eða hvort að hún er pappírsútgáfa sem þú ert ávallt með á þér. Það sem skiptir mestu máli er að það sem þú ritar í bókina er loforð eða skuldbinding af þinni hálfu.
3. Forgangsraðaðu í upphafi hvers dags
Notaðu nokkrar mínútur í upphafi hvers dags til þess að fara yfir verkefni dagsins og forgangsraða þeim. Það er mjög mikilvægt að raða rétt niður í dagbókina sína, Fyrst þarftu að setja til hliðar tíma fyrir þau verkefni sem mikilvægust eru. Til þess að geta það þarft þú að forgangsraða.
4. Byrjaðu á því sem mestu máli skiptir
Þetta hljómar eins og gömul tugga en er samt eitt af því sem sífellt þarf að minna á. Við freistumst til að byrja á léttu atriðunum sem minna máli skipta og ætlum okkur tíma seinna til þess að glíma við mikilvægu atriðin. Vandamálið er að seinna kemur aldrei.
5. Lagaðu til!
Ef vinnustöðin þín er svona eins og jarðsprengja hafi nýlega sprungið er ekki líklegt að þér gangi vel að halda góðu skipulagi. Notaðu klukkustund í hverri viku til þess að laga til hjá þér. Settu í geymslu það sem má fara í geymslu, raðaðu inn í möppur og komdu skipulagi á hlutina.
6. Nýttu þér tímastjórnun
Notaðu tímastjórnunarkerfi til þess að ná sem mestu út úr hverjum degi. Ekki láta truflanir í umhverfinu eins og tölvupóst, samfélagsmiðla eða farsíma trufla þig nema nauðsyn krefji. Haltu fókus á það sem þú ert að fást við og settu frekar til hliðar tíma nokkru sinnum á dag til þess að kanna póstinn og eða önnur skilaboð sem þú hefur fengið. Það er óþarfi að kíkja strax á póstinn ef það heyrist (ping) í tölvunni eða farsímanum.
Vona að þetta gagnist ykkur í baráttunni.
Njótið vel.