Hvatinn á bak við þennan pistil minn eru pistlar sem ég hef verið að lesa eftir Ketil Sigurjónsson ráðgjafa á sviði orkumála. 

Í pistli hans 27. janúar síðastliðnum sem kallast „Orkustefna Bretlands verður sífellt áhugaverðari“ leggur hann fram niðurstöður útreikninga um væntan hagnað þjóðarinnar af rekstri raforkusæstrengs út frá tillögum og hugmyndum sem eru í umsagnarferli í breska stjórnkerfinu. Hann tekur skýrt fram „Ennþá er sem sagt óvíst hvernig sjálf löggjöfin mun líta út“ með öðrum orðum útreikningar þeir sem lagðir eru fram eru í besta falli óskhyggja.

Hverjir eru langtíma hagsmunir þjóðarinnar?
Það er ekki um það deilt að orkuauðlindir okkar íslendinga eru miklar og í þeim felast mikil tækifæri til framtíðar. Okkur greinir hinsvegar á um það með hvaða hætti hagkvæmast er að nýta þessar auðlindir. Þar eru mörg ólík sjónarmið sem öll hafa kosti og galla. 

Talsmenn raforkusæstrengs til meginlandsins eða til Bretlands hafa haldið því fram að hér sé á ferðinni gífurlegt hagsmunamál fyrir íslendinga. Ég tel að ekki hafi tekist að færa fyrir því sannfærandi rök. Þá skoðun byggi ég á tveimur þáttum. 

Talsmenn raforkusæstrengs falla í þá gryfju að setja samasem merki á milli Landsvirkjunar og þjóðarinnar. Vissulega á þjóðin Landsvirkjun, en þegar menn reyna að nálgast ávinning þjóðarinnar af sölu og nýtingu orkuauðlinda er ekki hægt að reikna þjóðhagslegan ávinning út frá gjaldskrá eða afkomu þess ágæta fyrirtækis. Rafmagn sem nýtt er til verðmætasköpunar hérlendis hefur margfaldan þjóðhagslegan ávinning á við rafmagn sem hugsanlega yrði selt úr landi til verðmætasköpunar annarsstaðar. Þjóðhagslegur ávinningur er metinn af fleiri forsendum en auðlindarentu sem vissulega skiptir máli í heildarmyndinni en er ekki það eina sem skoða þarf. Nægir þar að nefna hluti eins og arð af afleiddri atvinnustarfsemi og önnur velferðaráhrif sem skapast af tryggri búsetu og öruggu starfi.

Í meistararitgerð Svandísar Hlínar Karlsdóttur frá 2013 sem nefnist „Experience in transporting energy through subsea power cables: The case of Iceland“ sem skrifuð er við  Verkfræði og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands er dregin saman reynsla af rekstri raforkusæstrengja frá Evrópulöndum hvað varðar tækni og áræðanleika. Út frá þessari samantekt á reynslu raforkusæstrengja er síðan lagt mat á áreiðanleika mögulegs sæstrengs frá Íslandi til Bretlands. Við lestur á þessu verkefni kemur í ljós að gera má ráð fyrir að bilanir verði á strengnum einu sinni á ári. Það fer síðan eftir því á hvaða tíma ársins og hversu langt frá landi bilunin er hversu lengi þarf að bíða eftir veðri til viðgerða. Ef bilun verður í hafi yfir sumartímann er þessi biðtími eftir heppilegu veðri 0 dagar en yfir veturinn 102 dagar. Meðaltalið er talið vera 57 dagar. Þessu til viðbótar er síðan viðgerðartíminn sjálfur sem að meðaltali er 40 dagar við bilun í raforkusæstreng. Samtals er því meðaltals bið- og  viðgerðartími við hverja bilun 97 dagar á hverju ári eða ríflega 3 mánuðir af 12.

Vissulega getur þessi tími verið styttri ef bilun verður á miðju sumri og ekki langt frá landi. En að sama skapi getur þessi tími orðið mjög langur ef bilun verður djúpt úti á hafi um miðjan vetur. Í ritgerð Svandísar er bent á að við þannig aðstæður gæti viðgerð og bið eftir heppilegu veðri mögulega tekið 156 daga við verstu aðstæður.

Í framsetningu Ketils og annarra talsmanna raforkusæstrengs er hvergi getið um bilanatíðni eða áreiðanleika svona raforkusæstrengja. Það er augljóst að reynsla annarra þjóða sem dregin er saman í ritgerð Svandísar gefur tilefni til þess að breyta því reiknilíkani sem notað hefur verið til þess að áætla væntan hag þjóðarinnar af þessu verkefni. Válynd íslensk veður hafa hér mikil áhrif á niðurstöður, það sýnir takmörkuð reynsla okkar á þessu sviði. Þegar bilanir hafa komið upp í raforkusæstrengnum til Vestmannaeyja eru viðgerðir ekki reyndar nema að sumarlagi, júní, júlí eða ágúst.

Samkvæmt frétt sem birtist á RUV 21. mars 2013, þar sem vísað er í ræðu forstjóra Landsvirkjunar sem flutt var sama dag á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu, eru í dag 2 terawattsstundir af raforku í kerfinu sem ekki nýtast í orkusölu innanlands. Raforka sem er framleidd með tilkostnaði á hverju ári en ekki seld. Það er erfitt að geyma rafmagn með góðu móti þannig að ef ekki tekst að koma því í verð þegar það er framleitt verður til gríðarleg sóun. 

Færa má mjög sterk rök fyrir því að sala á þessari orku innanlands hefði verulega góð áhrif á afkomu Landsvirkjunar til lengri tíma. Reynsla af sambærilegri sölu sýnir að afföll eru lítil, áhættan svotil engin, allan ársins hring.

Með því að selja ekki þessa orku er verið að sóa milljarða verðmætum í dag vegna væntinga um hærra verð í framtíðinn. Ég geri ráð fyrir því að Ketill og félagar hafi gert ráð fyrir þessari sóun og hafi reiknað út að væntanleg orkustefna Breta bæti okkur upp sóun síðustu ára. 

Höfundur er markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is

Greinin birtist á mbl.is 30. janúar 2014