Ketill Sigurjónsson ritar pistil hér á mbl.is sem hann kallar „Tímamót í efnahagssögu Íslands“ Málflutingur hans gengur sem fyrr út á að hæla stefnu Landsvirkjunar á kostnað stóriðju í landinu. Það er löngu kominn tími til að Ketill upplýsi um tengsl sín við Landsvirkjun en þau eru mjög náin ef marka má heimasíðu þess fyrirtækis sem hann veitir forstöðu, nefnilega Askja Energy. Það sem er alvarlegast er svo að Ketill vill ekki sjálfur upplýsa um þessi tengsl sín þrátt fyrir að ég og fleiri höfum ítrekað óskað eftir því við hann.
Það er ýmislegt í málflutningi Ketils sem ekki er hægt að láta fljóta hjá athugasemdalaust. Ketill segir í grein sinni að meðalverð á orku til stóriðju á íslandi sé 20 USD á hverja megawatts stund. Þetta stangast á við tölur sem forstjóri Landsvirkjunar Hörður Arnarson staðfesti árið 2010 og Ketill sjálfur ritaði í grein á mbl.is 5. maí síðastliðinn þannig að það er ósamræmi í málflutningi Ketils hvað þetta varðar.
Það vekur líka athygli mína að í þeim hluta pistilsins þar sem hann setur verð til stóriðju í alþjóðlegt samhengi notar hann tölur frá árinu 2009, 6 ára gamlar upplýsingar frá CRU International. Þetta alþjóðlega matsfyrirtæki hefur tölur sem eru nokkra vikna gamlar. Af hverju kýs Ketill að horfa framhjá þeim og bera saman áætlað meðal orkuverð til stóriðju á íslandi í dag og alþjóðlegar upplýsingar frá 2009? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að nýjar tölur í alþjóðlegu samhengi sýna að orkuverð til stóriðju hefur verið að lækka hratt og nemur sú lækkun 30% til 40% eftir löndum. En það hentar ekki málflutningi Ketils og því er brugðið á það ráð að nota tölur frá 2009 til samanburðar. Ekki trúverðugur málflutningur!
Hugmyndir Ketils um raforkusæstreng á milli Íslands og Bretlands eru þrálátar. Fyrir nú utan hæpnar efnhagsforsendur, mikla áhættu og þá staðreynd að bresk yfirvöld munu ekki greiða niður orku um raforkusæstreng nema til komi ný græn orka er ljóst að slík framkvæmd kallar á nýjar virkjanir og í því sambandi hefur verið talað um ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjana. Að öðrum kosti er raforkusæstrengurinn ósjálfbær. Miðað við framgang rammaáætlunar á Alþingi þessa dagana er ljóst að það verður ekki auðsótt mál að virkja fyrir sæstreng.
Tónninn í skrifum Ketils er ávallt sá sami, það er að orkuverð til stóriðjunar sé of lágt sérstaklega hefur hann tekið fyrir áliðnaðinn. Það má finna fjölda greina með Katli þar sem hann leggur sig fram um að tala niður áliðnaðinn á Íslandi um leið og hann hampar Landsvirkjun og þeirri stefnu sem þar er rekin. Ketill hvernig stendur á því að þú hefur ekki séð ástæðu til þess að skrifa eina línu um kísilvæðinguna sem Landsvirkjun hefur staðið fyrir víða um land. Þrátt fyrir þá staðreynd að vel þekkt er að mengun frá kísilverksmiðjum sé umtalsvert meiri á hvert notað megawatt af orku en þekkist í álverum?
Áliðnaðurinn stendur í dag jafnfætis sjávaraútvegnum varðandi útflutningstekjur. Hér er bent á nýja skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem m.a. kemur skýrt fram hvert heildarframlag áliðnarins er til þjóðarbúsins. Fyrir tíma álveranna stóð sjávarútvegurinn fyrir svo til öllum útflutningstekjum landsmanna. Sjávarútvegur er í eðli sínu sveiflukenndur og því má segja að áliðnaðurinn hafi með tilkomu sinni hér á landi átt sinn þátt í að jafna þær sveiflur til góða fyrir þjóðarhag.
En álverin hafa ekki bara haft jákvæð áhrif á þjóðarbúið í heild heldur einnig haft jákvæð svæðisbundin áhrif til uppbyggingar. Rannóknir hafa sýnt að álverin á Grundartanga og á Reyðarfirði hafi haft afgerandi þýðingu fyrir þróun atvinnulífs í nærumhverfi sínu og þar með rennt styrkari stoðum undir byggð á þeim svæðum.
Arðsemi Landsvirkjunar á liðnum árum er mikil þannig hafa verið færð rök fyrir því að virði fyrirtækisins í dag séu u.þ.b. 500 milljarðar króna. Þetta mikla virði hefur orðið til vegna viðskipta Landsvirkjunar við álfyrirtæki landsins. Forstjóri Landsvirkjunar hefur einnig bent á möguleika fyrirtækisins til verulegra arðgreiðslna á komandi árum, ekki verður um villst, að sá mikli arður er til kominn vegna orkukaupa álveranna.
Einnig er hægt að færa ágætis rök fyrir því að hið lága orkuverð sem almenningur og innlend fyrirtæki hafa notið í 50 ár sé til komið vegna álfyrirtækjanna þar sem þau hafa í gegnum tíðina staðið undir fjárfestingum Landsvirkjunar að mestu leiti.
Ketill velur að skauta framhjá öllum þessum staðreyndum í skrifum sínum um álverin. Þegar „rök“ Ketils eru skoðuð betur virðist því frekar vera um áróður, og jafnvel atvinnuróg að ræða frekar en haldbær rök.
Að lokum vill undirritaður upplýsa svo ekki fari milli mála að hann hefur margoft á síðustu 8 árum unnið fyrir Norðurál sem verktaki. Mest í verkefnum tengdum kvikmyndatöku, ljósmyndun og viðburðastjórnun ýmiskonar. Pistlar þeir sem ég rita um orkumál og stóriðju eru ekki kostaðir, heldur innblásnir af kynnum mínum af fyrirtækinu og mörgu af því úrvals fólki sem þar starfar.