Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa um langt skeið haldið því fram að raforkuverð í heiminum sé á hraðri uppleið. Á haustfundi Landsvirkjunar árið 2010 flutti Magnús Bjarnason, þáverandi framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landvirkjunar, erindi sem hann kallaði „Vöruþróun, samkeppnishæfni og verðstefna“ (glærur hér).

Mynd_1_Spa_Landsvirkjunar

Á mynd 1, sem kemur úr kynningu Magnúsar, má sjá verðspá Landsvirkjunar fram til ársins 2030. Spá þessi minnir um margt á framtíðarvæntingar útrásarvíkinga og spákaupmanna á árunum fyrir hrun þar sem allar spár bentu til endalausra hækkana um ófyrirséða framtíð. Spáin gerir ráð fyrir því að orkuverð í þýskalandi hækki úr 58 dollurum á hverja megawattsstund ($/MWst)  í 108 $/MWst á þessu 20 ára tímabili. Þrátt fyrir nokkra leit hefur undirritaður ekki fundið nýjar framtíðarspár um orkuverð á vef Landsvirkjunar. Það kemur á óvart þar sem forsendur fyrir þessari spá, sem birt var haustið 2010, hafa breyst mjög verulega. 

Mynd_2_Rauntolur og spa

En hverjar eru rauntölur síðustu 5 ára? Á mynd 2 má sjá spá Landvirkjunar á tímabilinu 2010 til 2015 fyrir Þýskaland, eins og hún birtist í glærum Landsvirkjunar, borin saman við meðaltals rauntölur frá The European Energy Exchange fyrir sama land. Þar má glögglega sjá að orkuverð hefur þróast í allt aðra átt en forsvarsmenn Landsvirkjunar kynntu á þessum haustfundi sínum árið 2010. 

Spá Landsvirkjunar gerði ráð fyrir því að árið 2015 yrði orkuverð í Þýskalandi 67 $/MWst. Rauntölur í dag sýna hins vegar að verðið er um 35 $/MWst og er enn fallandi.

Þessi mikli munur á væntingum og rauntölum er athyglisverður, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í gangi síðustu vikur um að Landvirkjun hafi verið að hækka heildsöluverð á rafmagni. Hækkun þessi hefur komið illa við iðnfyrirtæki s.s. Ölgerðina sem nýlega var fjallað sérstaklega um á síðum Morgunblaðsins. Nú síðast birtist í Viðskiptablaðinu grein þar sem skýrt er frá því að um seinustu áramót hafi verð á rafmagni, sem fiskimjölsverksmiðjum stóð til boða, verið hærra en verð á olíu. Bráðabirgðasamningar um tímabundna lækkun á raforkuverði runnu út nú í lok júní 2015.

Engu er líkara en að forsvarsmenn Landsvirkjunar séu fastir í baksýnisspeglinum og horfi enn á spána frá 2010 og neiti að viðurkenna að orkuverð fer hratt lækkandi um alla Evrópu, öfugt við þróunina á Íslandi. 

Það virðist vera skýr ákvörðun innan Landsvirkjunar að hverfa frá þeirri stefnu að Íslendingar, heimili jafnt sem og fyrirtæki, njóti betri kjara á orku en almennt gerist í samkeppnislöndum okkar.