Það má öllum vera ljóst að orkuverð um allan heim hefur tekið þess háttar dýfur síðustu ár að það á sér fá fordæmi. Þannig birtist á Bloomberg fréttaveitunni grein um málið fyrir skömmu síðan þar sem þeir hjá Bloomberg benda á að orkuverð í Þýskalandi hafi lækkað niður fyrir 30 Bandaríkjadali á hverja megawattsstund ($/MWst) í fyrsta skipti í áratug. Þá hafi hlutabréf í fyrirtækjum á orkumarkaði s.s. EON lækkað niður fyrir 10 evrur á hlut í fyrsta skipti í 15 ár og ekki sér fyrir endann á lækkunarbylgjunni. Þannig hafa orðið umtalsverðar lækkanir á Norðurlöndum, í Evrópu, í Kanada og í Bandaríkjunum eða öllum þeim helstu ríkjum sem við höfum borið okkur saman við.
Nýir samningar um orku í Kanada
Fyrir nokkrum vikum síðan var undirritaður nýr samningur um orkukaup Alcoa og Hydro Québec í Kanada. Samningurinn tók til þriggja álvera. Þau eru Alcoa Becancour, Alcoa Deschambault og Alcoa Baie-Comeau. Allir þessir samningar eru tengdir við álverð og munurinn á milli þeirra er umtalsverður. Miðað við álverð dagsins í dag má gera ráð fyrir að hæsta verðið sé um 30 bandaríkjadalir á hverja megawattsstund ($/MWst) og hið lægsta 16-18 $/MWst. Meðaltal þessara samninga er undir 25 $/MWst miðað við álverð í dag. Rétt er að geta þess til samanburðar að meðalverð hverrar seldrar megawattsstundar hjá Landsvirkjun var 27 bandaríkjadalir samkvæmt ársreikning félagsins fyrir árið 2014.
Síðasta föstudag, þann 11. september 2015, birtust fréttir, m.a. á vef Wallstreet í Þýskalandi þar sem kemur fram að Alouette álverið í Kanada hafi verið að fá verulega lækkun á orkuverði sínu. Alouette er eitt stærsta álver í heimi og er í blandaðri eignaraðild.
Í þessum samningum samþykkir kanadíska orkufyrirtækið Hydro Québec umtalsverða lækkun á orkuverði til Alouette. Verðið í þessum samningi er einmitt í samræmi við þær verðlækkanir sem sáust í ofangreindum samningum Alcoa. Aluette álverið notar tæp 1000 megawött af orku og Alcoa álverin um 1700 megawött. Þessi álver kaupa þannig um 2700 MW af rafmagni sem er umtalsvert meira en allar virkjanir á Íslandi geta framleitt til samans. Allir þessir samningar sem Hydro Québec hefur verið að gera eru að fullu tengdir við heimsmarkaðsverð á áli en voru það ekki áður. Þannig eru Kanadamenn að auka tengingu raforkusamninga sinna við álverð á sama tíma og Landsvirkjun talar um að slík tenging sé óæskileg.
Hið merkilega í þessum samningum er að fyrir örfáum árum voru Kanadamenn vissir um að mikil gósentíð væri í nánd vegna hækkandi orkuverðs og kröfðust þá um 43 bandaríkjadala fyrir megawattstundina, auk flutningskostnaðar, sem er sama verð og Landsvirkjun setur fram í gjaldskrá sinni.
Líkindin við Kanada?
Ákveðnum aðilum virðist mikið í mun, að sannfæra fólk um að orkuverð til álvera á Vesturlöndum sé að hækka. Þetta er ekki rétt! Raforkuverð í nýjum samningum við álver í Kanada hefur án nokkurs vafa verið að lækka (sjá hér að ofan) og reyndar raforkuverð til allra raforkukaupenda þar í landi.
Kanada er líklega langbesta fyrirmyndin sem við Íslendingar getum borið okkur saman við. Því er rökrétt að horfa aðeins á sögu orkumála í Kanada og á Íslandi.
- Bæði ríkin eru víðáttumikil miðað við höfðatölu og eiga miklu meiri orku en heimili og hefðbundinn iðnaður getur notað.
- Bæði ríkin völdu áliðnað til að nýta orkuauðlindir sínar.
- Bæði löndin hafa þannig byggt upp gríðarsterkan og orkusækinn iðnað.
- Kanada selur mest af sínu áli til nágranna sinna í Bandaríkjunum.
- Ísland selur sitt ál til nágranna í Evrópu.
- Í Kanada byggðust upp sterk þjónustufyrirtæki í hönnun, tækni og byggingum álvera og það sama hefur gerst hér á landi á síðustu áratugum.
- Í kringum aldamótin síðustu fóru Kanadamenn að horfa suður yfir landamærin á hin þéttbýlu og olíuháðu Bandaríki og sáu að þar var orkuverð á markaði mun hærra en í Kanada. Því voru tengingar við bandaríska orkukerfið auknar verulega og farið að selja orku suður fyrir landamærin.
- Um leið hækkaði orkuverðið til allra kaupenda.
- Verðið var sett 43 Kanadadali á MWst sem þá jafngilti þá um 43 Bandaríkjadölum.
- Landsvirkjun gaf út samningsverð sitt til 12 ára 43 Bandaríkjadali á MWst.
Síðan fóru Bandaríkjamenn að framleiða mun ódýrari orku með jarðgasi. Í stuttu máli hrundi orkuverðið í Bandaríkjunum og salan þangað var ekki eins arðsöm og áður. Orkuverð í Kanada hefur einnig lækkað hratt í kjölfarið.
Við höfum verið að velta fyrir okkur raforkusæstreng til Bretlands á sama tíma og Bretar tilkynna um 1,3 billjarða (1015) rúmfeta gasfund í norður hluta landsins. Hvaða áhrif það á eftir að hafa á orkumarkað Bretlands er enn óvíst.
Staðan núna er sú að Kanadamenn eiga 1000-2000 megawött laus sem erfiðlega gengur að finna verkefni fyrir. Kanadadalurinn er einungis 75% af því sem Bandaríkjadalurinn er í dag og orkuverð heimsins er enn að falla. Þessar staðreyndir speglast í nýjum risa samningum um raforku til álvera í Kanada.
Markaðsaðstæður ráða för
Eins og samningar Hydro Québec við Alcoa og nú síðast Alouette sýna, þá spegla þessir samningar þær markaðsaðstæður sem ríkja þegar þeir eru gerðir. Það er að mörgu að hyggja og ljóst er að forráðamenn Hydro Québec hafa metið stöðuna þannig að betra væri að tryggja langtíma samninga sem tækju mið að álverði heimsins á hverjum tíma frekar en að eiga á hættu að missa viðskiptin alveg. Þetta eru staðreyndir málsins. Beyglaðar söguskýringar sjálfskipaðra sérfræðinga breyta litlu þar um, sama hversu langt er gengið í að hagræða sannleikanum.
Slóðir fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar:
http://www.bloomberg.com/news/articles/2015-08-25/why-do-germany-s-electricity-prices-keep-falling-
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/1999191