Mjög mikil lækkun hefur orðið á síðustu árum á alþjóðlegum raforkumörkuðum. Framvirkir samningar til næstu 5 ára, ásamt annarri þróun á orkumarkaði benda eindregið til þess að orkuverð standi í stað a.m.k. næstu 5 árin og hugsanlega lækki það enn frekar. Þannig hefur orkuverð í nágrannalöndum okkar lækkað um helming á síðustu fimm árum. Atburðarásin virðist öll vera á einn veg: orkuverð mun haldast lágt áfram eins langt fram í tímann og menn þora að spá. 

En af hverju ættum við að hafa áhyggjur af því? Kemur það sér ekki vel fyrir okkur að orka skuli vera að falla í verði? Vissulega er það jákvætt fyrir okkur neytendur. Hér má sérstaklega nefna lækkandi olíuverð sem síðan hefur áhrif til lækkunar á ýmsum öðrum sviðum hér á landi. En það er ekki bara olían sem er að lækka. Ein af megin uppsprettum okkar fyrir erlendan gjaldeyri er sala á orku sem við seljum að mestu leyti til orkusækins iðnaðar. Þessi orka hefur verið að lækka í verði, hratt í öllum okkar helstu viðmiðunarlöndum. 

Skammt er síðan Landsvirkjun og Hydro Québec í Kanada buðu sambærilegt verð á raforku fyrir orkusækinn iðnað, eða 43 bandaríkjadali á hverja megawattsstund ($/MWst). Nú hefur það gerst að Hydro Québec hefur endurmetið aðstæður á markaði og endurskoðað verðstefnu sína með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni sína til lengri tíma.  Hydro Québec er að endurnýja hvern samninginn á fætur öðrum við þau álver sem starfa í Kanada og verð þessara samninga hefur undantekningalaust verið tengt við álverð sem gefur svigrúm til hækkana ef aðstæður á álmörkuðum batna til hins betra. Lægsta verðið í þessum nýju samningum hefur farið niður í 18-20 $/MWst.  

En hvers vegna er Hydro Québec í Kanada að endursemja til langs tíma við álfyrirtækin um lækkanir á samningum sem þegar voru í gildi? Ástæðuna er fyrst og fremst að finna í erfiðum markaðsaðstæðum sem nú ríkja á orkumörkuðum. Hér má t.d. nefna að bæði Bretar og Ameríkanar hafa nýlega fundið miklar gaslindir. Nýjar borunaraðferðir (e. fracking) hafa gefið eldri orkulindum nýtt líf og skyndilega er engin skortur á jarðefnaeldsneyti til staðar. Þannig hafa Bandaríkjamenn hafið umtalsverða rafmagnsframleiðslu með gastúrbínum þar sem framboð á gasi hefur stóraukist og orkuverðið hríðfallið í kjölfarið.

Annað sem er athyglisvert er sú staðreynd  að Kanadamenn standa í fararbroddi við þróun á umhverfisvænni kjarnorku og Kanadamenn hafa það á stefnuskránni að vera komnir með lítil fjöldaframleidd umhverfisvæn kjarnorkuver í stærðinni 500 til 1000 MW í fjöldaframleiðslu innan nokkurra ára. Gangi þau áform eftir gera spár ráð fyrir að raforkuverð muni fara niður fyrir 10 $/MWst til lengri tíma litið. 

Þriðja atriðið sem ég vill nefna er að stóriðjan er ekki fasti. Reynsla síðustu ára er skýr, eigendur þessara iðjuvera hika ekki við að loka þeim og flytja á nýjan hagkvæmari stað ef rekstur þeirra reynist óhagkvæmur. Nýlegt dæmi um lokun álvers frá Kentucky í Bandaríkjunum þar sem orkuverð var óhagstætt og kjaradeilur við starfsfólk erfiðar. Þetta minnir óþyrmilega á stöðuna sem nú er uppi í Straumsvík.

Þetta eru megin ástæður þess að Kanadamenn eru að læsa samningum til langs tíma sem taka mið af núverandi markaðsaðstæðum.

Samkvæmt vef Landsvirkjunar virðist fyrirtækið halda fast í þá verðstefnu sem sett var við allt aðrar markaðsaðstæður en nú eru ráðandi. Það hafa komið fram aðilar sem telja sig geta greitt eitthvað hærra verða fyrir orku hér á landi en það meðalverð sem kemur fram í ársreikningum  Landsvirkjunar. Þetta eru fyrirtæki sem sem hafa verið gerð hornreka annars staðar í heiminum vegna umhverfis sóðaskapar. Þetta eru fyrirtæki sem losa allt að 3 sinnum meira af Co2 út í andrúmsloftið á hverja notaða orkueiningu eða 8 sinnum meira á hvert framleitt tonn, heldur en áliðnaðurinn á íslandi gerir. Þessi fyrirtæki eru því í raun að greiða myndarlegt sóðaálag ofan á eðlilegt orkuverðið til Landsvirkjunar. 

Ef spár þeirra, sem eru að boða nýja orkubyltingu með umhverfisvænni kjarnorku eða köldum samruna, ganga eftir hefur Landsvirkjun u.þ.b. tveggja ára glugga til þess að læsa löngum samningum um orkusölu til orkusækins iðnaðar. Eftir þann tíma verður hægt að kaupa orku í gámavís og flytja hana þangað sem þörfin er. 

Af þessum sökum telur greinarhöfundur að nú þurfi að gera það sama og Kanadamenn hafa gert á síðustu mánuðum, nefnilega að læsa stóriðjuna inni í samningum til langs tíma. Ef það gengur ekki eftir, er rétt að hafa verulegar áhyggjur af lækkandi orkuverði og ekki síður rekstri Landsvirkjunar á næstu árum. Sérstaklega ef þeim hefur áður tekist að hrekja hér í burtu stóriðjuna, sem stendur fyrir 40% af heildar vöruútflutningi landsins. Þá er óvíst að hægt verði að fá gjaldeyri til þess að kaupa kaffibaunirnar í latte-drykki þjóðarinnar. 

Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2075472