Ég hef verið nokkuð hugsi síðustu dag vegna kæru Landverndar, sem tilkomin er vegna jólakveðju til landsmanna frá einu af álfyrirtækjum landsins. Snorri Baldursson, formaður Landverndar, hefur farið mikinn í fjölmiðlum og sumt af því sem eftir honum er haft er nokkuð sérstök túlkun á raunveruleikanum. Ósjálfrátt spyr maður sig hvort þessi aðferðafræði formannsins sé Landvernd til framdráttar.

Á vef Landvernd er skýrt út fyrir hvað samtökin standa. Þar segir: „Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi.

Ég hef ekkert við þessa stefnu Landverndar að athuga og tel reyndar að hún sé vel orðuð og skynsamleg. Hver vill ekki bæta lífsgæðin í landinu og standa vörð um íslenska náttúru um leið og leitað er jafnvægis milli nýtingar og verndar náttúrauðlinda? En framkvæmd þeirra sem stjórna Landvernd er því miður á annan veg. Ítrekað hafa þessi samtök beitt sér svo einstrengingslega gegn nýtingu auðlinda og uppbyggingu iðnaðar að það gengur í berhögg við hugtakið upplýst ákvarðanataka. Er það tilviljun að þeir aðilar sem hafa valist til að stýra þessum samtökum koma mestmegnis af vinstri væng stjórnmálanna?

Landvernd hefur tekið þá stefnu (sem hvergi er til skrifuð) að berjast gegn orkusæknum iðnaði á Íslandi og þá sérstaklega áliðnaði. Þetta sést vel á framgöngu formannsins nú síðustu daga. En hvað er það við áliðnaðinn á Íslandi sem verðskuldar þessa athygli Landverndar? Ég verð að viðurkenna að ég átta mig bara ekki alveg á því. 

Ál er þriðja algengasta frumefni jarðarinnar, einungis súrefni og kísill finnast í meira magni. Efnið er notað mjög víða vegna eiginleika þess, léttleika og styrks. Í daglegu lífi njótum við öll kosta álsins. Má þar nefna að álnotkun gegnir lykilhlutverki við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda sjáum við efnið notað í sífellt meira magni í hverslags samgöngutæki til að létta þau, spara eldsneyti og menga minna. Brýr, þök og hvolf yfir íþróttahallir eru dæmi um mannvirki þar sem ál er notað ásamt gluggum, hurðum og klæðningum úr áli. Þetta merkilega efni er líka notað í búsáhöld, eldunaráhöld, rafleiðslur, lyfjaumbúðir  og í hverskonar umbúðir undir matvæli, svo að fátt eitt sé nefnt.

Ál er notað vegna þess að það er umhverfisvænt, létt og styrkur þess er mikill í samanburði við eðlisþyngd. Fyrirmyndarfyrirtækið Össur byggir til að mynda stóran hluta af framleiðsluvörum sínum á eiginleikum áls.

Gjarnan heyrist að álframleiðsla á Íslandi sé svo mengandi. En er það alveg rétt? Vissulega á sér stað talsverð losun efna í svona stórum verksmiðjum. En óháðir, virtir aðilar fylgjast með að losun sé innan þeirra marka sem getið er um í starfsleyfi og starfsleyfið er gefið út af okkar bestu sérfræðingum hjá Umhverfisstofnun eftir ítarlegt matsferli. En hvað með aðra annars konar starfsemi? Mengar hún ekki neitt? Það er staðreynd að allt brölt okkar mannanna skilur eftir spor í umhverfinu. Við framleiðslu á nútíma þarfaþingum á borð við tölvur á sér til dæmis stað gríðarleg mengun. Við eyðum að meðaltali 300 lítrum af olíu fyrir hvert tonn af fiski sem við færum að landi. Þær flugvélar sem fluttu hingað 1,3 milljónir ferðamanna á síðasta ári losa umtalsvert meira af gróðurhúsalofttegundum en öll stóriðjan á Íslandi gerir. Mestu máli skiptir þó hin mikla framræsing lands sem átt hefur sér stað á síðustu áratugum varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Sjávarútvegur, stóriðjan og flugið blikna í þeim samanburði.

Ef við viljum ræða mengun landsins, ættum við kannski fyrst að snúa okkur að plasti og plastnotkun. Plastmengun fer vaxandi með auknum ferðamannastraumi til landsins og vitað er að þar eru eitrunaráhrif og langur niðurbrotstími mikið vandamál. Plastflöskur eða áldósir – hvort er betra? Plastmengun í hafi er þekkt og gæti ógnað framtíð okkar sem fiskveiðiþjóðar. Vísindamenn hafa varað við hættu sem umhverfinu stafar af plastrusli sem safnast fyrir í lífríkinu. Á hverju ári hafna 8 milljónir tonna af plasti í sjónum og kemst þar inn í fæðukeðjuna. Plastið brotnar niður í litlar agnir þar sem dýr, allt frá rækjum til hvala, éta það með fæðu sinni. Þannig kemst það inn í fæðukeðjuna og mengar. Þetta kann að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir dýr og menn. Sumir ganga meira að segja svo langt að segja að þarna sé að finna skýringu á minnkandi frjósemi mannkyns.

Mig rekur ekki minni til þess að Landvernd hafi tekið utan um þessar eða aðrar helstu umhverfishættur sem að okkur steðja. Vissulega hefur Landvernd andmælt lagningu Sprengisandslínu og minnt á stefnuleysi í uppbyggingu ferðaþjónustu á hálendinu, en hvenær hefur Landvernd beitt sér gegn ofbeit á afréttum sem er gríðarleg umhverfisvá? Hvenær hefur Landvernd beitt sér fyrir endurheimt votlendis? 

Hið stóra tækifæri Landverndar felst í því að sameina alla Íslendinga, hvaða stjórnmálaskoðanir sem þeir aðhyllast, í vitundarvakningu og varðstöðu um íslenska náttúru. Vonandi bera samtökin gæfu til þess í framtíðinni að láta pólitíska slagsíðu einstakra harðlínumanna ekki spilla fyrir því verðuga markmiði.

Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2163945