Nú stefnir allt í að álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík (RTA) verði lokað eftir u.þ.b. 12 klukkustundir. Annað veifið brjótast fram á ritvöllinn hugsuðir miklir og fagna þeim endalokum. Þannig kallar ritstjóri einn, sem oft fer mikinn í umræðunni, fyrirtækið „niðursetning á þjóðinni“ svo að fátt eitt sé nefnt. Hér opinberast dapurleg vanþekking. Tölulegar staðreyndir sýna fram á að þetta fyrirtæki, eins og önnur álfyrirtæki hér á landi, er fyrirmyndarþegn í samfélaginu. Útflutningstekjur álveranna þriggja námu 227 milljörðum króna á síðasta ári eða um 40% af útflutningsverðmæti Íslendinga. Yfir 38 milljarðar króna fóru í kaup á raforku, um 25 milljarðar í kaup á vörum og þjónustu af um 700 fyrirtækjum og 14 milljarðar voru greiddir í laun og opinber gjöld. Lítum aðeins nánar á álver RTA í Straumsvík og þau verðmæti sem þar eru í húfi.
Störf og afleidd störf
Byrjum á starfsfólkinu. Í Straumsvík vinna u.þ.b. 450 starfsmenn. Þar af eru 70 starfsmenn með háskólamenntun, 120 iðnaðarmenn og 260 verkamenn sem margir hverjir hafa fengið staðgóða undirstöðumenntun í Stóriðjuskólanum sem álverið hefur rekið af myndarskap um árabil. Upplýst var nýverið að álverið greiðir um 48% hærri laun fyrir þjónustu þessa fólks en almennt er greitt fyrir sambærilega vinnu á vinnumarkaðnum. Það er engin niðursetningsbragur af því. Til viðbótar þessum störfum er talið að um 1.000 manns glati lífsviðurværi sínu af afleiddum störfum hjá þeim fyrirtækjum sem þjónusta álverið.
Hagsmunir Hafnarfjarðarbæjar, ríkisins ofl.
Hafnarfjarðarbær verður af stórum fjárhæðum í formi fasteignaskatta og hafnargjalda. Einnig tapar bæjarfélagið útsvarstekjum af bróðurpartinum af ríflega 4 milljarða launagreiðslum. Samtals gæti tjón Hafnarfjarðarbæjar numið 1,5 milljörðum á ári.
Ríkið tapar u.þ.b. 800 milljónum í beinar skatttekjur árlega af sömu störfum auk þess sem gera má ráð fyrir að allt að 70% þeirra, sem missa vinnuna, fari á atvinnuleysisbætur um lengri eða skemmri tíma. Kostnaður samfélagsins vegna greiðslu atvinnuleysisbóta til 70% starfsmanna er nálægt því að vera 3,5 milljarðar á ári.
Ekki má heldur gleyma mörgu smáu sem samfélagið nýtur góðs af. RTA er t.d. einn stærsti styrktaraðili barna- og unglingastarfs íþróttahreyfingarinnar og rekur samfélagssjóð sem styrkir margvísleg verkefni um myndarlegar upphæðir á hverju ári.
Tekjur Landsvirkjunar
Tap Landsvirkjunar er umtalsvert ef Rio Tinto Alcan kemur sér undan kaupskyldu sinni með því að nýta „Force majeure“ ákvæði í orkusamningi sínum. Landsvirkjun glatar 23,5% af raforkusölu sinni. Með því að leggjast yfir ársreikninga fyrirtækisins, má námunda tekjutap Landsvirkjunar upp á 12,7 milljarða árlega.
Orðspor Íslands
Erlend fjárfesting er mjög mikilvægur þáttur í efnahagslífinu. Erlendir fjárfestar, sem leita tækifæra til að byggja upp starfsemi í nýjum löndum, horfa til ákveðinna forsendna. Hér má nefna lykilþætti á borð við pólitískan stöðugleika; áhuga og efndir stjórnvalda varðandi samstarf um fjárfestingarverkefni með hagsmuni beggja að leiðarljósi; sveigjanleika á vinnumarkaði m.t.t. algengis vinnudeilna og samstarfs við verkalýðsforystuna; menntun og færni mannauðs auk annarrar almennrar samkeppnishæfi rekstrarumhverfis.
Verði af lokun álversins, munum við sem þjóð snar falla í áliti hjá erlendum fjárfestum sem kynnu að vilja fjárfesta hér. Skammt er síðan hér þótti ríkja skaðlegur pólitískur óstöðugleiki. Ímynd stjórnvalda hefur aðeins færst til hins betra en bíður nú hnekki. Hér er látið óáreitt að orkufyrirtæki í eigu ríkisins verðleggi fyrirtæki út af markaði með því að gera samkeppnishæfi þess 30% lakari en fyrirtækja í eigu sama aðila í nágrannalöndum. Hér standa verkalýðsfélög svo hart á prinsippum að þau telja betri kost að fyrirvinnur 1.500 fjölskyldna missi störf sín frekar en að störf 30 til 70 starfsmanna verði boðin út.
Hverjir bera ábyrgð?
Hér eru of miklir hagsmunir í húfi til þess að hægt sé að líða stjórnvöldum að segja pass í þessari atburðarás. Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og þeirra fulltrúar, sem skipaðir hafa verið til þess að stjórna Landsvirkjun, bera fulla ábyrgð á því að samkeppnishæfi álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík sé kastað á glæ vegna ósamkeppnishæfrar orku frá ríkisfyrirtæki. Þeir stjórnendur, sem þarna hafa valist til forystu, valda greinilega ekki verkefninu. Hér þarf því að skipta út og skipta út hratt.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2160904