Í febrúar sl. fór í gang hjá Ríkiskaupum útboð númer 15768 sem var sett fram fyrir hönd Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og ber nafnið „Mat á áhrifum raforkusæstrengs“. Þar var óskað eftir tilboðum í „kaup á ítarlegri þjóðhagslegri kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum raforkusæstrengs á íslenskt samfélag samkvæmt tæknilýsingu/verklýsingu.“ Þessi úttekt ráðuneytisins er löngu tímabær og henni ber að fagna. Útfærsla útboðsins og val á verktaka vekur hins vegar nokkra athygli.
Margt kemur á óvart
Sett eru nokkuð ströng skilyrði um þekkingu og menntun, m.a. er farið fram á doktorspróf í hagfræði. Gerð er krafa um að fyrirtækið, sem verkið vinnur, hafi reynslu af þremur sambærilegum verkefnum á síðustu sjö árum o.s.frv. Það vekur því athygli að fyrirtækið, sem hreppti verkefnið, er banki (Straumur, síðar MP Straumur og nú Kvika). Bankinn hefur enga beina reynslu á þessu sviði.
Bankinn skartar hinsvegar nokkrum fyrrverandi starfsmönnum Landsvirkjunar, til dæmis fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar sem nú gegnir stöðu framkvæmdastjóra alþjóðasviðs Kviku.
Einnig vekur athygli að ekki voru sett fram í útboðinu nein vanhæfisviðmið eða skilgreiningar um óæskileg tengsl þeirra sem að verkinu starfa, við helstu hagsmunaaðila.
Launalaust vinnuframlag?
Engum dylst að um er að ræða vandasamt verkefni sem útheimtir mikla vinnu og vönduð vinnubrögð, eigi markmið ráðuneytisins um ítarlega þjóðhagslega kostnaðar- og ábatagreiningu að nást. Greinarhöfundur hefur leitast við að áætla hve mikil vinna felst í einni svona skýrslu út frá útboðslýsingu og borið þá útreikninga undir sérfróða einstaklinga sem þekkja til í orkugeiranum. Samkvæmt þessum málsmetandi mönnum má gera ráð fyrir því að raunverð þessa verkefnis sé a.m.k. á bilinu 20 til 30 milljónir króna en hæsta tilboðið sem barst var tæpar 60 milljónir. Tilboð Kviku í verkefnið nam 10 milljónum króna en sú upphæð mun eyðast hratt í vinnu sérfræðinga. Því vakna eðlilega spurningar um það hver ber kostnaðinn sem á vantar og niðurgreiðir þar með verkefnið – eða hvort menn vinna hreinlega launalaust tímunum saman.
Hætt við hagsmunaárekstrum
Að verkefninu á vegum Kviku kemur líka eitt stærsta og dýrasta ráðgjafyrirtæki Evrópu á þessu sviði, Pöyry. Fyrirtækið hefur verið í ráðgjafahópi Landsvirkjunar í langan tíma, bæði hvað varðar þróun og framtíðarhorfur á raforkumörkuðum og einnig við byggingu Kárahnjúka. Landsvirkjun hefur ítrekað vísað í heimildir frá þessu fyrirtæki í kynningum sínum. Því vakna eðlilega áhyggjur af tengslum þeirra.
Það er þjóðhagslega mjög mikilvægt að vel til takist með þetta verkefni sem ráðuneytið hefur ýtt úr vör af fyrirhyggju og metnaði. Skortur á vanhæfisreglum og veruleg tengsl þeirra er að verkefninu koma við stærsta hagsmunaaðilann blasa hér við. Það er umhugsunarefni hvernig slíkir annmarkar geta farið saman við markmið ráðuneytisins um ítarlega og vandaða úttekt.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2098598