Hversu mikil áhrif get ég haft á umhverfi mitt með því að taka virkan þátt í þeim kosningum sem mér standa til boða? Ég hef síðustu vikur svolítið velt þessu fyrir mér. Ég hef tekið þátt í öllum kosningum sem hafa farið fram síðan 1982 og er enn að taka þátt, trúandi því að ég geti í raun haft áhrif. Að eiga þess kost að segja sitt álit í kosningum og hafa mögulega áhrif á hvaða málstaður nær fram að ganga í samfélaginu okkar,er jú hornsteinn þess lýðræðis sem við búum við.
Ég minnist þess að þegar ég fór að velta fyrir mér pólitík fyrir alvöru og nýta rétt minn til þess að kjósa, hafði ég miklu meiri áhrif en ég hef í dag. Með atkvæði mínu gat haft áhrif á það hvaða sjónarmiða gætti í bankaráðum ríkisbankanna. Hverjir sætu í stjórn Ríkisútvarpsins og fjölda annarra ríkisstofnana. Ég gat beitt atkvæði mínu til þess að þeir sem töluðu fyrir þeim sjónarmiðum sem ég aðhylltist, gætu haft pólitísk afskipti á ýmsum sviðum samfélagsins. Með sama hætti gat ég ef ég taldi illa farið með það vald sem í atkvæði mínu fólst, ákveðið að gefa nýjum aðila mitt vægi til þess að hafa áhrif. En nú er öldin önnur, möguleg áhrif mín eru þverrandi í samanburði við það sem áður var.
Völd embættismanna
Allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar, sem finna má á athugasemdakerfum fjölmiðlanna og víðar, súpa hveljur og bölva pólitískum afskiptum. Ástæða þessa er að það þykir ekki lengur fínt eða jafnvel boðlegt að hafa pólitísk afskipti af samfélaginu og grunnstoðum þess. Í staðin eru skipaðir embættismenn í stjórnir, sýslur og ráð sem taka pólitískar ákvarðanir á hverjum degi án þess að hafa til þess umboð kjósenda í landinu. Kjósandinn hefur því ekkert um það að segja lengur hvernig ákvarðanir þessara kjörnu embættismanna ganga fram. Enginn ber pólitíska ábyrgð á aðgerðum þeirra sem með valdið fara í þessum stjórnum, ráðum og sýslum. Á sama tíma og rætt hefur verið um að jafna þurfi vægi atkvæða í landinu, hafa ráðmenn þessa lands kerfisbundið einnig skert vægi þeirra atkvæða sem greidd eru.
Hér á öldum áður bjó fólk við andstæður lýðræðis: konungsvald, harðstjórn eða stjórnleysi. og í ákveðnum heimshlutum finnast dæmi um slíkt enn. Lýðræði á að tryggja bæði dreifingu valds og ábyrgðar og ekki síður hvernig fólk getur valið og skipt um valdhafa á friðsaman hátt.
Við nýtum okkur lýðræði einnig sem tæki til að taka ákvarðanir um hagsmunamál okkar, mál sem við erum ósammála um s.s. eins og að kjósa okkur þjóðhöfðingja. Þetta snýst ekki um að útdeila valdi heldur einfaldlega um hvernig skuli taka ákvörðun í hópi fólks. Ákvörðun getur verið lýðræðisleg í þessum skilningi hvort sem hún er ákvörðun fjölskyldunnar hvað skuli hafa í kvöldmat eða ákvörðun þjóðar um að afsala sér fullveldi eða sjálfstæði.
Eru of miklar væntingar bundnar við lýðræðið? Það er alveg mögulegt en það er hornsteinn í þjóðfélagi okkar. Þannig er lýðræði ekki markmið í sjálfu sér heldur leið okkar að réttlátara samfélagi.
Við fólkið í landinu sitjum uppi með það að enginn axlar ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru. Við getum tekið dæmi einkahlutafélög ríkisins á borð við ISAVIA, RUV, Landsvirkjun og RARIK svo einhver séu nefnd. Við, með hinu lýðræðislega valdi okkar, höfum ekki lengur áhrif á skipan þeirra sem reka þessar stofnanir frá degi til dags. Þessar stofnanir eru reknar í mörgum tilfellum af embættismönnum sem síðan taka pólitískar ákvarðanir. Þjóðin er áttavillt og enginn þessara embættismanna virðist þurfa að bera minnstu ábyrgð á gerðum sínu. Þannig vantreystir þjóðin bæði pólitíkusum og embættismönnum, sem pólitíkusar hafa ráðið.
Valdið aftur til alþingis
Ég tel að við þurfum að færa ábyrgð frá pólitískum embættismönnum sem engin vill bera ábyrgð á. Ábyrðin þarf að færast á hendur þeirra kjörnu fulltrúa sem við þjóðin höfum valið til að fara með þetta vald. Við þurfum með öðrum orðum að auka pólitísk afskipti.
Aðhaldið verður svo að vera fólgið í opinni, gagnrýnni og heiðarlegri umræðu um verk og gjörðir þeirra sem við höfum treyst fyrir valdi okkar. Mér er ekki kunnugt um að sannleikurinn hafi lotið í lægra haldi í frjálsum og opnum skoðanaskiptum.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2176010