Ég er einn af þeim sem með athygli fylgist með viðburðum í því skyni að meta hver markaðsleg áhrif þeirra verða yfir tíma. Í þessu ljósi hefur verið sérlega áhugavert að fylgjast með þátttöku landsliðsins okkar í knattspyrnu á Evrópumótinu í Frakklandi. 

Allar líkur eru á því að áhrifa þessa einstaka viðburðar eigi eftir að gæta í íslensku athafnalífi um árabil. Jákvæð framkoma stuðningsmanna og óvæntur árangur liðsins urðu að umfjöllunarefni þúsunda miðla um allan heim. 

Einn af þeim vísum sem vert er að fylgjast með er hversu oft orðið „Iceland“ er leitarorð hjá Google.  Þegar það er skoðað yfir tíma í hlutfallslegri línu. Þá sést að í samanburði við eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hefur orðið tvöföldun í fjölda leita af orðinu „Iceland“. Það er gríðarlega mikil aukning. 

Hvað þýðir þetta? 
Það er erfitt að spá um það með nákvæmni í augnablikinu en ljóst er að liðið og stuðningsmenn hafa vakið mikla athygli víða um veröld. Sú athygli gæti, ef vel er á haldið orsakað enn skarpari vöxt í komu erlendra ferðamanna til landsins. 

Þetta leiðir hugann af þeirri staðreynd að stuðningur ríkisins við afreksíþróttafólk á Íslandi er mjög takmarkaður. Réttindi þess mjög skert og því fórn þeirra fyrir það að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar er oft á tíðum mjög mikil. Sem betur fer á þetta ekki við um knattspyrnulandsliðið því það er skipað leikmönnum sem hafa atvinnu af því að vera íþróttamenn. KSÍ hefur lýst því yfir að leikmenn fái greiðslur fyrir þátttöku sína fyrir fé Evrópska knattspyrnusambandsins og er það vel.  

Þetta kallar á það að Ríkissjóður endurskoði framlög sín til afreksíþrótta heildstætt.

Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2176115/