Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Askja Energy Partners ehf, sem Landsvirkjun fjármagnar, fer mikinn í pistli sínum 12. ágúst hér á mbl.is. Ketill hamast sem fyrr við að telja fólki trú um að Landsvirkjun selji orku til stóriðjunnar, sérstaklega til álvera, á allt of lágu verði. Þetta er áhugverð viðleitni hjá Katli, sérstaklega þar sem rök hníga í gagnstæða átt. Sterku rökin, sem Ketill forðast að ræða, eru mörg. Hér skal nefna tvenn:
Almennt raforkuverð á Íslandi er mun lægra vegna stóriðjunnar
Landsvirkjun var stofnuð 1965. Einn megintilgangur fyrirtækisins var að sjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum fyrir ódýrri orku. Þannig varð fyrsti stóriðjusamningur Landsvirkjunar við Alusuisse hornsteinn í framkvæmd þessarar stefnu. Alla tíð síðan hafa almennir notendur á Íslandi notið hagstæðs orkuverðs í skjóli stóriðjunnar. Í samantekt, sem Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum formaður stjórnar Landsvirkjunar, reit fyrir Skóla atvinnulífsins 2009 kemur fram að á tímabilinu 1997 til 2008 hafi meðalfjölskyldan greitt, á föstu verðlagi ársins 2008, 30% lægri rafmagnsreikning árið 2008 en 1997. Jóhannes telur að sú lækkun sé til komin að miklu leyti vegna aukinnar sölu til stóriðju.
Í skýrslu, sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson gerðu um arðsemi Landsvirkjunar fyrir Fjármálaráðuneytið árið 2011, kemur fram að það sé rangt sem oft heyrist í umræðu hér að raforkusala til heimila hafi niðurgreitt raforkusölu til stóriðju. Þvert á móti sýna niðurstöður Ásgeirs og Sigurðar að íslensk heimili hafa notið mjög góðs af stóriðjunni að því leyti að raforkusala til stóriðju hefur gefið færi á nýtingu stærri og hagkvæmari virkjunarkosta, og leitt til uppbyggingar stærra og öruggara dreifikerfis.
Ketill forðast eins og heitan eld að nefna þetta atriði sem er mögulega eitt hið mikilvægasta í heildar-orkumynd okkar.
Gríðarleg virðisaukning Landsvirkjunar
Ríkið keypti tæplega helmings hlut í Landsvirkjun árið 2006 á ríflega 30 milljarða. Út frá því má álykta að virði félagsins á þeim tíma hafi verið u.þ.b. 60 milljarðar. Í dag telja sérfræðingar að virði Landsvirkjunar sé að minnsta kosti um 500 millljarðar króna. Þessi gríðarlega virðisaukning hefur orðið til vegna sölu Landsvirkjunar á orku til stóriðjunnar. Bendir þessi gríðarlega virðisaukning til þess að Landsvirkjun hafi verið að gefa frá sér orku landsins? Ég tel að það sé hreint fráleit túlkun staðreynda í þessu ljósi. Rétt er líka að minna á loforð núverandi forstjóra Landsvirkjunar um umtalsverðar arðgreiðslur sem byggjast á því að félagið hefur greitt skuldir sínar niður hraðar en reiknað var með vegna gríðarlegra tekna frá stóriðjunni.
Hamast á mjólkurkúnni
Margir kannast við BCG módelið svokallaða sem Boston Consulting Group kom fram með á sínum tíma og byggist á því að skipta vörum fyrirtækis upp í spurningarmerki, hunda, stjörnur og mjólkurkýr/peningakýr (e. Cash cow). Stóriðjan, sérstaklega álfyrirtækin, er samkvæmt því líkani hin afurðamikla mjólkurkýr/peningakýr Landsvirkjunar. Viðbótar fjárfestingarþörf hennar vegna er lítil nema að ný fyrirtæki bætist við, fjárstreymi frá stóriðjunni til Landsvirkjunar er mjög mikið og nýtist til þess að styrkja og byggja upp spurningarmerkin og stjörnurnar.
Það er því einkennilegt í meira lagi að Landsvirkjun fjármagni starfsemi þess manns sem með reglulegum hætti hefur ráðist á mjólkurkú félagsins á ómaklegan hátt. Er ekki mál að linni?
Upphafleg birting hér: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/1930132