Í þessari grein sem er lokagreinin í þessum flokki um orkustefnu landsins skyggnumst við aðeins til framtíðar í orkumálum þjóðarinnar.
Þróun
Orkuverð í Evrópu hefur lækkað mjög á liðnu ári eftir töluverða bólu, en fyrir fáum árum var verðið mjög hátt og því spáð að það mundi bara hækka. Segja má að mesta bólan hafi verið í spánum og ástæðan fyrir þeim hafi að stórum hluta verið óttinn við gróðurhúsaáhrif og sókn eftir kolefnalausum orkugjöfum.
Eftir loftslagsráðstefnuna í París í desember, virðist sem Bretar hafi breytt um stefnu í raforkumálum og stefni nú á fjöldaframleiðslu umhverfisvænna kjarnaofna líkt og Bandaríkjamenn og Kanadabúar. Telja má víst að með þessu móti sé hægt að lækka verulega kostnað við raforkuvinnslu úr kjarnorku. Takist þessi tilraun, mun hækkun orkuverðs stöðvast við einhver mörk í stað sífelldrar hækkunar eins og áður var rætt um. Aðrar þjóðir munu þá taka upp þessa tækni. Stefnubreyting Breta sýnir einnig vel þá pólitísku áhættu sem felst í útflutningi þangað á rafmagni í stórum stíl. Bæði Bretar og önnur Evrópuríki breyta stefnum og reglugerðum, sem hafa áhrif á markaðsverð rafmagns, eftir því sem hagsmunir þessara ríkja gefa tilefni til.
Ekki er ljóst hvort ný gerð umhverfisvænna kjarnorkuvera verður, þegar upp er staðið, nýr grundvöllur raforkuframleiðslu í heiminum, eða hvort hún verður biðleikur meðan verið er að þróa nýtingu á köldum samruna. Það má nefnilega telja mjög líklegt, að tilvist og nýtingarmöguleikar þeirrar ótrúlegu orkuuppsprettu hafi loks verið staðfestir. Fari þar allt að vonum er hér um að ræða ótæmandi orkulind sem býður upp á hagkvæmni sem er sambærileg við íslensk jarðgufuorkuver. Stærð og hreyfanleiki þessara nýju orkukosta er þannig að staðsetning þeirra er því sem næst frjáls. Það þýðir að orkuver í hentugri stærð getur verið við hlið þess sem orkuna nýtir og því hverfur þörf fyrir háspennuraflínur til flutnings. Sem stendur er þessi valkostur þó aðeins hluti af af þeim spennandi möguleikum sem ætlað er að uppfylla orkuþörf mannkyns til framtíðar.
Stefna
Efnahagslegar framfarir eru hér svipaðar og hjá öðrum sambærilegum þjóðum, þótt oft hafi gefið á bátinn en fleytt kerlingar á stundum. Menntun og lífskjör eru hér góð. Við þurfum eins og aðrar þjóðir Norður-Evrópu að taka við fólki frá láglaunasvæðum, sem stundar hér láglaunastörf, en við viljum, að afkomendur þess fólks sem ílengist hér, njóti sömu tækifæra og aðrir Íslendingar. Ekki er örgrannt um, að stundum hafi hlutfallið milli útstreymis menntaðs vinnuafls og innstreymis ómenntaðs verið þjóðinni óhagstætt. Þetta gerðist til dæmis árin eftir hrunið 2008.
Iðnaður, sem byggist á nýtingu hagkvæmrar raforkuframleiðslu, hvort sem er stóriðja eða smáiðnaður, býður almennt upp á fjölbreytt hálaunastörf í ríkara mæli en aðrar greinar. Það má sjá m.a. á víðtækum útflutningi á þekkingu varðandi bæði virkjun orkuauðlinda og bætta verkferla við stóriðjustörf. Segja má, að vel hafi tekist með uppbyggingu þekkingar og sköpun fjölbreyttra hálaunastarfa í kringum stóriðju, en sá afleiddi úrvinnsluiðnaður, sem vonast var eftir og nýta átti afurðir stóriðjunnar, hefur látið á sér standa.
Hvort tveggja er, að stóriðjan hér er ekki mjög fjölbreytt og fjarlægð frá mörkuðum fyrir iðnvarning er mikil. Óhagræðið af fjarlægðinni má ef til vill vinna upp að nokkru með hagkvæmu raforkuverði. Hér þyrfti markvisst að leita tækifæri til slíks iðnaðar, sérstaklega iðnaðar sem nýtir ekki aðeins raforku, heldur og ekki síður lághitajarðvarma. Ef til vill má, ef vandlega er leitað, finna tækifæri í ylrækt með lýsingu, lífefnaiðnaði og fleiri greinum. Hið upprunalega hlutverk Landsvirkjunar við stofnun var einmitt að stuðla að slíkum vexti og grósku með lágu orkuverði á almennum markaði, sem þó þurfti að bera í sér hvata til áframhaldandi virkjunar orkuauðlindarinnar.
Með framangreint í huga virðist skynsamlegt að forðast stórtæka uppbyggingu margra stórra iðjuvera á mjög skömmum tíma. Þó að hröð uppbygging stóriðju geti hjálpað þjóðinni upp úr öldudal síðustu kreppu, ber að hafa í huga að mjög ör uppbygging krefst meiri fjármunamyndunar og því hærra orkuverðs en hæg.
Þörf á nýrri vegferð
Raforkusæstreng til Bretlands, undir þeim formerkjum sem hann er boðaður, virðist þarna ofaukið. Hann hefði lítinn eða engan ávinning í för með sér nema fyrir sjóðsstreymi Landsvirkjunar. Áhrif til atvinnuppbyggingar í þágu þjóðarinnar yrðu engin. Það er stórt umhugsunarefni þegar um er að ræða takmarkaðar orkuauðlindir Íslendinga.
Í þessu sambandi er líka vert að minnast á kerfisáættu Landsnets sem virðist ætla að fara í 100 milljarða framkvæmd með háspennulínu yfir Sprengisand án þess að meta hvaða áhrif framkvæmdin hafi á gjaldskrá. Eða hvaða áhrif það muni hafa á fyrirtækið ef þeir nýju orkukostir sem nefndir eru hér að ofan verða ofaná. Hvaða hagsmunum þjónar slík framkvæmd? Er eingöngu verið að búa í haginn fyrir raforkusæstreng til Bretlands? Er ekki þörf á að stjórnvöld taki af skarið?
Einsýnt er að íslensk stjórnvöld verði að ráðast í að móta langtíma heildarstefnu í orkumálum landsins og taka upp raforkulögin frá árinu 2003 til gagngerrar endurskoðunar. En það er ekki nóg að móta stefnu um hvar á að virkja eða vernda. Í fyrsta lagi þarf starfsemi Landsvirkjunar sem ríkisfyrirtækis að stuðla að jafnvægi í íslensku efahagslífi en ekki að raska því. Í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að einn stór aðili geti misnotað markaðsráðandi stöðu sína á kostnað viðskiptavina. Í þriðja lagi þarf að tryggja að flutningsverð raforku hér á landi sé samkeppnishæft við nágrannalöndin, en það er margfalt hærra hér en í Noregi.
Samkeppinsmarkaður með orku á Íslandi er óvirkur. Þess vegna hrærist Landsvirkjun í tveimur kerfum samtímis: Markaðskerfi samkvæmt lagabókstaf og kerfi fákeppni sem er hin raunverulega staða á íslenskum raforkumarkaði. Þó að Landsvirkjun keppi að orði kveðnu á samkeppnismarkaði, eru dæmi um að fyrirtækið hafi á síðustu árum hækkað verð til ýmissa iðnfyrirtækja umtalvert í krafti yfirburðastöðu sinnar með neikvæðum afleiðingum á efnahag og umhverfi. Þar má nefna dæmi um fiskimjölsverksmiðjur sem vegna mikilla hækkana á raforku hafa ákveðið að nota frekar innflutta olíu fyrir verksmiðjur sínar en íslenskt rafmagn. Vissulega gott fyrir sjóðsstreymi Landsvirkjunar (þar til skipt er yfir í olíu) en ekki jafngott fyrir iðnaðinn sem fjárfesti í tækni til að nýta þessa auðlind landsmanna á forsendum sem ekki hafa staðist.
Í ljósi þess að hér ríkir ekki samkeppnismarkaður, er æskilegt að skýrt sé, eins og áður var, að Landsvirkjun sé óheimilt að gera samninga sem leitt geti til hækkunar á verði til dreifiveitna umfram verðlag. Meðan markaðskerfið virkar ekki og fákeppnisástand er á markaði verður stefnan og regluverkið að halda fyrirtækjunum í skefjum. Mikilvægt er einnig að að skýra hlutverk Landsvirkjunar sem framleiðanda til þrautavara svo tilbúin skortstaða leiði ekki til verðhækkana.
Í þetta verkefni þarf stjórnmálaleiðtoga með dug og framsýni, leiðtoga sem skynja að setja þarf heildstæða langtímastefnu í raforkumálum landsins. Stefnu sem ýtir undir frumkvæði og athafnasemi fólks, stefnu sem styður fjölbreitt, blómlegt og frjótt atvinnulíf, stefnu sem eykur samkeppnisfærni allra undirstöðugreina íslensks atvinnulífs, stefnu okkar sem tekur mið af aðstæðum hér, en ekki hvað kemur ríkjum Evrópu best, líkt og regluverk okkar gerir í dag.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2168730