Í næstu greinum hér á mbl.is ætla ég að reyna að varpa skýrara ljósi á þróun síðustu 50 ára á íslenskum raforkumarkaði. Draga fram mynd af því hvernig við sem þjóð fórum að því að nýta orkuauðlindir okkar þjóðinni allri til hagsbóta. Einnig ætla ég að reyna að skyggnast örlítið fram á veg.
Árdagar rafvæðingar
Á fyrstu dögum raflýsingar í Reykjavík urðu áhyggjur af orkuverði revíuhöfundum efni í eftirfarandi söngtexta. Þetta var í fyrstu íslensku revíunni sem sýnd var í Reykjavík í leikhúsi Breiðfjörðs, 6. janúar 1895:
Við Arnarhól er höfuðból
þar er hálært bæjarþing
sem vantar eitt og vantar eitt,
það vantar alltaf, viti menn,
og vill fá – upplýsing.
Og þessi spurning kemst í kring;
Hvað kostar raflýsing?
Strax þarna við upphaf rafmagnsnotkunar til lýsingar voru menn að velta fyrir sér verðinu á rafmagni. Í dag, ríflega 100 árum síðar, eru menn enn að velta fyrir sér verði á rafmagni enda eru nútíma lifnaðarhættir algerlega háðir raforku. Því skiptir verðlagning á þessari nauðsynjavöru verulegu máli varðandi afkomu hvers heimilis og fyrirtækis.
Stofnun Landsvirkjunar
Hinn 1. júlí árið 1965 var Landsvirkjun stofnuð fyrir atbeina ríkisstjórnar Íslands. Kveikjan að stofnuninn var áhugi þáverandi ráðmanna á því að nýta betur orkuauðlindir landsins til atvinnusköpunar og aukinna lífsgæða fólksins í landinu. Hugmyndin var að draga að erlenda fjárfesta í orkufrekan iðnað í þeim tilgangi að fjármagna uppbyggingu virkjanna sem myndu skapa nýja atvinnukosti og tryggja orkuöryggi landsins.
Landsvirkjun var því stofnuð í þeim tilgangi að byggja og reka raforkuver sem gætu selt raforku til stóriðju og séð almennum markaði fyrir nægri raforku á hagkvæmu verði. Alþjóðabankinn var tilbúin til að fjármagna uppbyggingu Búrfellsvirkjunar með því skilyrði að ríkisstjórnin gerði langtíma samninga um sölu á verulegum hluta orkunnar. Á þessum tíma hafði þjóðin enga möguleika á því að fjármagna stór verkefni eins og byggingu Búrfellsvirkjunar með öðrum hætti.
Uppbygging orkusækins iðnaðar
Samningar um byggingu álvers á Íslandi í þessum tilgangi voru undirritaðir árið 1966, en þá höfðu viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands (“Viðreisnarstjórnarinnar“) staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust við Búrfell og í Straumsvík.
Þessi uppbygging hélt áfram í nokkrum stökkum á komandi áratugum, þannig að reistar voru stórar virkjanir, stærri en 150 MW. Stóriðjan var byggð upp samhliða þessum virkjunum í þeim tilgangi að standa undir fjárfestingunni um leið og almenningi var séð fyrir nægu rafmagni á hagstæðu verði. Mest var byggt af álverum, því þau reyndust geta greitt hæsta orkuverðið á þessum tíma. Þessari miklu uppbyggingu er nú að stórum hluta til lokið með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls. Til byggingar þeirra mannvirkja sem hér um ræðir voru fluttar inn stórvirkar vinnuvélar, sem ekki fóru úr landi aftur og voru nýttar til annarrar mannvirkjagerðar, eins og vegagerðar, þannig að verk unnust hraðar og ódýrar en áður þekktist. Íslenskir verkfræðingar, tæknifræðingar og iðnaðarmenn öðluðust mikla þjálfun við þessar framkvæmdir og nú er svo komið að þeir flytja út þekkingu sína á þessum sviðum í stórum stíl.
Þessar fyrstu framkvæmdir, ásamt síðari tíma virkjunum samhliða uppbyggingu stóriðjunnar, skiptu sköpum fyrir jákvæða uppbyggingu íslensks samfélags. Samfélagið nýtur enn verulegs félags- og fjárhagslegs ábata sökum þess að fé frá stóriðjunni var látið greiða niður fjárfestinguna í raforkukerfinu, en almennir notendur nutu lægra orkuverðs en almennt gerðist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Vafasöm breyting á raforkulögum
Það vekur sérstaka athygli mína að í upphaflega lagafrumvarpinu um Landsvirkjun sem samþykkt var á 85. löggjafarþinginu 1964-1965 var sérstaklega tekið á því að Landsvirkjun væri óheimilt að gera samninga við raforkukaupendur sem gætu valdið hærra verði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið. Illu heilli er ekki að finna sambærilegt ákvæði í nýjum raforkulögum sem sett voru árið 2003.
Áhyggjur af orkuverði og orkuframboði voru á þessum tíma ekki nýjar af nálinni. Þjóðin upplifði reglulega skort og skammtanir á rafmagni. Því kemur ekki á óvart að megintilgangur þess að stofna til Landsvirkjunar var sá að skapa skilyrði til aflmikilla virkjana í stórám landsins, tryggja með því í senn næga raforku í landinu og lágan vinnslukostnað orkunnar. Því aflmeiri sem virkjunin er, því lægra er að jafnaði vinnsluverðið. Á hinn bógin þurfa aflmiklar virkjanir tilsvarandi stærri markað fyrir orkuna til þess að standa undir fjárfestingunni. Því má segja að samþætting á uppbyggingu Landsvirkjunar og stóriðjunnar, auk þeirrar stefnu sem stjórnmálamenn þess tíma mörkuðu, hafi bæði tryggt næga orku fyrir mikinn og hraðan vöxt þjóðfélagsins og lágt verð til neytenda.
Í næstu grein skoðum við aðeins á stöðuna í dag.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2166403