Ég hef fylgst með darraðardansinum í kringum Sigmund Davíð síðustu daga, sérstaklega eftir Kastljósþátt gærkvöldsins. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð aðra eins aðför að íslenskum stjórnmálamanni. Vissulega var forsætisráðherra klaufskur í svörum við þeim spurningum sem komu flatt upp á hann en sá klaufaskapur jafngildir því ekki að hann hafi brotið af sér í starfi. Allur þessi spuni og hvernig hann er til komin vekur upp spurningar um hlutverk og starfsemi fjölmiðla og sérstaklega þátt RÚV í þessu máli. Framsetningin í þessum Kastljósþætti var um margt nokkuð sérstök og var greinilega ætlað að vekja sem mesta tortryggni. Magnþrungin tónlist og hálfkveðnar vísur. Pólitísk fyrirsát er hugtak sem kemur upp í hugann. Kastljós fólk heldur svo áfram að nota sömu pólitísku álitgjafa og áður. Prófessor Vilhjálm Árnason, sem kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum „siðferðilega óverjandi“ og Indriða H. Þorláksson, hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Kastljós fólk virðist hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru afhentir hrægammasjóðunum. En Indriði er aðeins kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætir í Kastljós Ríkisútvarpsins til viðtals. Með þessu vali á viðmælendum bregst RÚV þeirri skyldu sinni í að gæta sanngirni í framsetningu og efnistökum.

En hvað með efnistökin? Í ljós hefur komið síðustu daga og var síðan staðfest í umræddum Kastljósþætti að líkast til er ekkert ólöglegt hér í gangi. Þetta má merkja á þeim gögnum sem lekið hefur verið. Nema ef vera skyldi sú staðreynd að þarna eru blaðamenn að sýsla með upplýsingar sem verndaðar eru samkvæmt lögum um persónuvernd og þeir eiga ekki að hafa undir höndum. Þá hlaupa menn upp og fara að tala um að þessi gögn sýni að fólkið á þessum lista hafi sýnt af sér siðferðilega misbresti. Ekki er til neinn einn opinber mælikvarði á siðferði. Einstaka hópar og starfsstéttir setja sér siðareglur ef sérstök ástæða þykir til. Það að bregða fyrir sig uppdiktuðum mælikvarða um siðferði til þess að úthrópa fólk er eins og að ráðast á fólk fyrir smekkleysi. Eina siðferðislega spurningin sem ég sé í þessu máli miðað við fyrirliggjandi upplýsingar lýtur að því að eiga ráðstöfunarfé erlendis sem hægt er að nota til fjárfestinga og ávöxtunar í erlendum gjaldmiðlum á meðan að íslenskur almenningur situr ekki við sama borð. Sú spurning var ekki borin fram í Kastljósþætti gærkvöldsins.

Blaðamenn eiga að sjálfsögðu að birta nöfn allra þeirra sem taldir eru hafa brotið lög. En uppdiktaðir siðferðislegir mælikvarðar réttlæta ekki framkomu eins og þá sem boðið var upp á í Kastljósi í gær. Skiptir þá engu þótt ráðherrann hafi komið einstaklega klaufalega fyrir í viðtali því sem sænska sjónvarpið tók við hann. Enda augljóst að hann var fenginn til viðtalsins á allt öðrum forsendum.

Upphafleg birting; https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2169578