Samtök atvinnulífsins héldu ráðstefnu um sæstreng til Evrópu á Icelandair Hótel Reykjavík Natura 11. nóvember. Þar voru flutt áhugaverð erindi og síðan voru umræður í panel. Fyrirlesarar hafa nokkuð víðfeðma þekkingu af raforkumálum og sæstrengsverkefnum. Má þar nefna Geir-Arne Mo, viðskiptastjóra stundarviðskipta (e. Spot Market) hjá Bergen Energi, David Bothe, framkvæmdastjóra hjá Evrópuskrifstofu ráðgjafafyrirtækisins Frontier Economics og síðast en ekki síst Tor Eigil Hodne, framkvæmdastjóra Evrópumála hjá Statnett í Noregi sem er þeirra Landsnet. Rétt er að hrósa þessu framtaki SA en fyrirlesarar voru allir með einstaklega vandaða og upplýsandi framsögu.
Norðmenn búa vel í orkulegu tilliti. Þeir framleiða u.þ.b. 34 gígawött (GW) af raforku. Nýting þeirra á þessari orku er rétt ríflega 50%. Það þýðir að u.þ.b. 17 GW eru umframorka sem segja má að renni þar til sjávar árlega án þess að skapa aukin verðmæti fyrir norsku þjóðina. Þess vegna er það hagkvæmt fyrir Norðmenn að selja þessa umframorku inn á raforkustrengi til Evrópu. Til samanburðar er raforkuframleiðsla okkar Íslendinga rétt um 2 GW á ári og nýtingarhlutfallið nálægt því að vera 87%. Með sömu rökum er því hægt að segja að umframorka í raforkukerfi okkar sé 0,26GW sem nýtast ekki til aukinnar verðmætasköpunar fyrir þjóðina.
Norðmenn eru að leggja 2 nýja sæstrengi, einn til Hollands og annan til Bretlands. Hvor þessara strengja getur borið 1,4GW eða 2,8GW samanlagt. Til þess að fullnýta báða þessa strengi þarf einungis 16,4% af umframorku þeirri sem til er í norska raforkukerfinu eða 8% af heildarframleiðslugetu þeirra.
Í því dæmi sem helst hefur verið til umræðu hérlendis er verið að tala um raforkusæstreng af sambærilegri stærðargráðu og Norðmenn eru að leggja til Bretlands, streng sem yrði 1,4 GW. Öll umframorka, sem til er í íslenska raforkukerfinu í dag, er því aðeins 18% af því sem strengurinn getur borið. Það þyrfti því sem svarar helming allrar núverandi raforkuframleiðslu okkar Íslendinga til þess að fullnýta hugsanlegan sæstreng.
Umræða um verð og verðmyndun var nokkuð áberandi á þessum fundi. Bæði hvernig raforkuverð hefur verið að þróast á mörkuðum síðustu árin og einnig hvernig uppbygging raforkuverðsins er að breytast. Framsögumenn voru nokkuð sammála um að samsetning raforkuverðs til framtíðar yrði þannig að 20% verðsins ættu upptök sín í auðlindinni eða framleiðslunni á raforkunni og 80% verðsins mundi tilheyra flutningi og dreifingu. Þessi framsetning og hugsun vakti áhuga undirritaðs. Með henni er verið að undirbyggja að verð til neytenda muni stórhækka á næstunni til þess að greiða fyrir aukin kostnað við dreifingu eða sæstrengsvæðingu Evrópu. Þetta er grundvallar tilfærsla verðmæta.
Í dag eru íslensk heimili og smáiðnaður að greiða nálægt 50% af orkuverðinu fyrir flutning og dreifingu. Spurningin, sem verður að fá svar við eftir þennan fund, er því þessi: Ímyndum okkur að Ísland yrði tengt raforkusæstreng til Bretlands og að orkuverð hérlendis væri lagað að evrópskum markaðsaðstæðum þannig að hlutfall framleiðslu og dreifingar hérlendis verði 80%/20%. Hvort myndi þá sú verðhækkun sem yrði til vegna aukins flutnings og dreifingarkostnaðar leiða til hækkunar á verði fyrir neytendur eða til lækkunar á verði fyrir orkuframleiðendur?
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2159544