Þeim sem talað hafa fyrir lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands hefur orðið tíðrætt um reynslu Norðmanna og gjarnan bent þangað máli sínu til stuðnings. Verkefnisstjórn sæstrengs hefur nú skilað lokaskýrslum til iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þar er enn á ný horft sérstaklega til reynslu Norðmanna af lagningu sæstrengja. 

Norska raforkukerfið er gerólíkt því íslenska. Meginástæðan er sú að yfir 90% af norsku húsnæði eru hituð upp með raforku öfugt við hér, þar sem 90% húsnæðis eru hituð upp með jarðvarma. Í Noregi eru því mjög miklir toppar á álagi raforkukerfisins yfir vetrartímann. Virkjanir Norðmanna eru hannaðar og reistar miðað við að anna eftirspurninni á þessum toppum sem verða yfir köldustu daga ársins.  

Þessi munur veldur því að mjög mikið ónýtt afl er fyrir hendi í norska raforkukerfinu meginhluta ársins. Þessu er öfugt farið hér þar sem stóriðjan kaupir um 80% af allri raforku sem við framleiðum og nýtir hana samfellt nærri því 97%. Hitasveiflur í raforkukerfinu hér á landi eru tiltölulega mjög litlar vegna jarðvarmans sem við nýtum til að hita vistarverur okkar, þó að auðvitað kalli skammdegið á veturna á meiri lýsingu.  Þetta þýðir að það er sáralítill munur á meðal raforkunotkun og því þegar notkunin er hvað mest. Í kerfinu okkar er því hlutfallslega mjög lítið af afgangsorku eða svokölluðu toppafli.

Ríflega tvær Kárahnjúkavirkjanir
Þetta þýðir að í Noregi þarf ekki að virkja til þess að selja orku inn á sæstrengi. Þessu er þveröfugt farið hér þar sem sáralítil umframorka er í kerfinu og því þyrfti að virkja. Raforkusæstrengur frá Íslandi til Bretlands kallar á fjárfestingar í orkuvinnslu upp á 1.459 megavött af nýju uppsettu afli (skv. mið-sviðsmynd verkefnisstjórnar). Til þess að glöggva sig á umfanginu er rétt að nefna að Kárahnjúkavirkjun er 690 megavött í uppsettu afli. Af því leiðir að virkja þarf ígildi 2,1 slíkra virkjanna til þess að fæða sæstrenginn.  

Einnig þarf að taka með í reikninginn að Landsvirkjun er ýmist búin að ljúka samningum eða er í samningaviðræðum við fjögur kísiliðjuver sem samanlagt þurfa yfir 2500 gígavattsstundir fyrir sína framleiðslu á næstunni. Orkuþörf næstu ára er því mikil, jafnvel þó að ekkert verði af áformum um sæstreng. 

Nýtist ekki til sveiflujöfnunar
Efnahagslegur grundvöllur raforkusæstrengs og í raun allra stórra mannvirkja er að ná fram sem mestri nýtingu á mannvirkið frá fyrsta degi. Hugmyndir um að gera líkt og Norðmenn gera að selja einungis orku þegar verðið hátt, nokkra klukkutíma á dag, gengur illa upp fyrir okkur. Við getum ekki virkjað fyrir sæstreng og látið virkjanir bíða þar til rétt verð fæst á markaði. Sama gildir um þá sem mögulega mundu vilja fjárfesta þessum risavaxna raforkusæstreng. Það er allt of mikið tekjutap að láta mannvirkið standa án nýtingar klukkustundum saman. Þar af leiðir að umræða um að raforkusæstrengur sé einhvers konar sveiflujöfnunartæki stenst ekki á forsendum aðstæðna hér á landi. 

Talsmenn sæstrengs hafa bent á þann möguleika að á næturnar sé hægt að flytja orku til landsins í gegnum raforkusæstreng og nýta tímann til þess að safna vatni í miðlunarlón íslenskra virkjana. Með þessum hætti  megi safna orku í miðlunarlónin sem síðar seljist á hærra verði að degi til. Tæknilega er þetta vissulega hægt en menn gleyma því gjarnan að þá er verið að flytja sömu orkuna tvisvar sinnum í gegnum strenginn, fram og til baka. Þetta mundi hafa mjög mikil áhrif á flutningskostnað á hverja orkueiningu sem seld er. Ólíklegt er að þetta fyrirkomulag geti orðið hagkvæmt til lengri tíma litið.

Öryggishugmyndir óraunhæfar
Að auki hefur verið bent á að raforkusæstrengurinn auki orkuöryggi þjóðarinnar, til dæmis ef hér yrði meiriháttar náttúruvá. Á þessu eru hins vegar tæknilegir annmarkar. Upplýst hefur verið að það taki allt að tvær klukkustundir að skipta um straumstefnu á strengnum. Auk þess er ólíklegt að orka frá sæstreng gagnist nokkuð ef flutningsmannvirki, sem eru nánast öll ofanjarðar hafa laskast af hendi náttúrunnar. Þessir annmarkar gera öryggishugmyndir tengdar sæstreng óraunhæfar.

Sóunin sem hefur gleymst
Þessu til viðbótar er rétt að minna á að gríðarlegt orkutap verður þegar orka er flutt um sæstrengi. Orkutapið verður í áriðli, afriðli og í strengnum sjálfum. Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, hefur bent á að tapið í gegnum strenginn og tengimannvirki geti verið allt að 10%. Það jafngildir því ríflega 1,5 Búðarhálsvirkjunum sem tapast af orku í gegnum raforkusæstrenginn. Bjarni hefur verið ómyrkur í máli og kallað tap eins og þarna kæmi fram orkusóun. Þetta er nokkuð merkilegt í því ljósi að talsmenn raforkusæstrengs hafa notað sem rök að með því að selja svokallað umframafl inn á sæstreng að þá sé verið að koma í veg fyrir sóun. Þannig gleymist í umræðunni hve sóunin í strengnum sjálfum vegur þar þungt á móti.

Fjármunum betur varið til heilbrigðismála?
Kjarni málsins er því sá að aðstæður í Noregi og Íslandi eru gerólíkar og ekki samanburðarhæfar vegna þess hve ólík kerfin eru. Norðmenn búa við gríðarlega mikið umframafl í sínu orkukerfi og þurfa ekki að virkja sérstaklega fyrir útflutning sinn. Þessi umframorka er ekki til hér á landi í þeim mæli að hún geti verið grundvöllur raforkuútflutnings um raforkusæstreng.

Rökin fyrir þessari mögulegu sæstrengsframkvæmd eru því að gufa upp eitt af öðru. Landsvirkjun hefur nú árum saman verið með þetta mál á dagskrá og sett í það hundruð milljóna af almannafé. Er ekki rétt að fara að leggja strenginn á ís og snúa sér að mikilvægari málum? Það bráðvantar til dæmis fé til heilbrigðismála.