Atgervisflótti er ekki nýtilfundið hugtak. Það er þekkt staðreynd að þar sem ekki tekst að skapa fólki störf við hæfi, unir það hag sínum illa og afræður að leita nýrra tækifæra á nýjum slóðum. Ungt fólk flyst burt vegna þess að samfélagið megnar ekki að bjóða því atvinnumöguleika þar sem það getur nýtt þekkingu sína og hæfileika. Framtaksleysi í atvinnumálum er því eitt helsta áhyggjuefnið í mörgum byggðarlögum.
Á Austurlandi átti sér stað umtalsverður atgerfisflótti á árunum fyrir 2003. En gjörbreyting varð á málum 15. mars 2003 þegar skrifað var undir virkjunar- og álverssamninga. “Þann dag tók Austurland stakkaskiptum,“ segir Smári Geirsson fyrrverandi framhaldsskólakennari þegar undirritaður spjallaði við hann fyrir skemmstu. Svæðið hafði árum saman búið við fækkun starfa, fólksfækkun, lágt fasteignaverð og samdrátt hjá þjónustufyrirtækjum. Eftir undirritun samninganna breyttist hugarfar fólks fyrir austan – bjartsýni, jákvæðni og framkvæmdahugur tóku að hafa áhrif á öllum sviðum mannlífsins til hins betra.
Smári from Vidar Gardarsson on Vimeo.
Fram að þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað í kjölfar samninga um byggingu Fjarðaáls og Kárahnjúka, voru atvinnumöguleikar á Austfjörðum takmarkaðir, ekki síst vegna þess að atvinnulífið var einhæft og byggðakjarnar smáir. Svo smáir að þjónusta sem við á mölinni teljum sjálfsagða og eðlilega átti erfitt uppdráttar. Þjónustustarfsemi sem oft myndar kjarnan í hverju samfélagi s.s. matvöruverslun, menningarstarfsemi, bakarí, pósthús, bifreiðaverkstæðið – allt voru þetta einingar sem smátt og smátt höfðu látið á sjá og voru ýmist hættar rekstri eða verulega hafði dregi úr honum. Ungt fólk fór gjarnan suður í nám og ílengdist þar. Færri og færri skiluðu sér til baka eftir að námi lauk. Þessi þróun varð til þess að heilu fjölskyldurnar tóku sig upp og leituðu nýrra tækifæra.
Einn af þeim aðilum sem reynt hafa þessa miklu sveiflur í samfélaginu fyrir austan á eigin skinni er Sigurjón Baldursson, starfsmannastjóri vélsmiðju Hjalta Einarssonar á Reyðarfirði. Hlustum á hvað hann hefur að segja:
Sigurjón from Vidar Gardarsson on Vimeo.
Af orðum Smára og Sigurjóns má ljóst vera að atvinnuuppbygging og tækifæri fyrir vel menntað ungt fólk er grundvöllur þess að byggð haldist í landinu. Efla þarf sérstaklega frumkvæði og framtak á landsbyggðinni. Í því felst að auka þarf menntun og rannsoÌknir og styrkja enn frekar tengsl menntunar og atvinnulífs. Lykillinn að sterkri landsbyggð byggist á því að gera heimahagana fýsilega til framtíðarbúsetu og draga þannig úr straumi fólks til höfuðborgarsvæðisins eða snúa honum jafnvel við. Straumi, sem verður til, vegna öflugrar miðlægrar þjónustu sem þar hefur verið byggð upp.
Hér þarf að hugsa með nýjum hætti. Samþjöppun þjónustu á öllum sviðum á suðvestur-horninu er landsbyggðinni þungt viðmið. Það verða að byggjast upp tækifæri til athafna, vaxtar og fullnægjandi samfélagslegrar þjónustu í öllum landshlutum. Ef vel tekst til, mun stór hluti þess unga fólks sem fór að leita sér menntunar á mölinni eða freista gæfunnar erlendis erlendis, snúa aftur heim í sitt hérað.
Upphafleg birting: https://vg.blog.is/blog/pistlar/entry/2166658