Viðar Garðarsson stjórnendaþjálfari

Flestir lenda í vandræðum þegar þeir eru beðnir að nefna hvaða kostir eigi að prýða góðan stjórnanda með ótvíræða leiðtogahæfileika. Eftir því sem talað er við fleiri kemur smátt og smátt í ljós skýr mynd af því hvaða kosti góður stjórnadi þarf að bera.

Hann þarf að vera traustur
Traust er ein af undirstöðum allra samskipta og tengsla. Án þess er útilokað að heilbrigt skapandi umhverfi geti myndast.

Hann þarf sterka sýn á framtíðina og á að hvetja fólk þangað
Góður stjórnandi getur ekki þvingað eða ýtt fólki í átt að þeirri framtíðarsýn sem hefur verið mörkuð. Hann verður að leiða eða ganga fram með góðu fordæmi. Hvetja fólk til þess að vilja gera og gefa sitt allra besta.

Hann þarf að vera varkár og skilningsríkur um áhrif sín á aðra
Það er talið einn af mikilvægustu kostum góðs stjórnanda að vera meðvitaður um sig sjálfan og áhrifin sem aðrir geta orðið fyrir af athöfnum hans.

Hann þarf að axla ábyrgð á verkum sínum
Alvöru stjórnandi víkur sér ekki undan og lætur aðra taka ábyrgð á verkum sínum og athöfnum. Hann axlar ábyrgð og skýlir sínu fólki fyrir neikvæðum áhrifum gerða sinna.

Hann þarf að vera öruggur og viss um sjálfan sig
Hvernig þú metur sjálfan þig hefur mikið með það að gera hvernig aðrir sjá þig. Hér gildir gamla góða máltækið að hver og einn einstaklingur er í senn sinn besti vinur eða sinn versti óvinur.

Góður stjórnandi á að leiða ekki stjórna
Línan hér á milli getur verið fín. Leiðtogar stjórna sannarlega en stjórnendur leiða sjaldan.